Gunnlaugur Íslandsmeistari eftir litríkt sumar

Gunnlaugur Jónasson landaði Íslandsmeistaratitlinum á laugardag.
Gunnlaugur Jónasson landaði Íslandsmeistaratitlinum á laugardag. Ljósmynd/B&B Kristinsson

Þriðja og síðasta kappaksturskeppni Formula 1000 var haldin á hringakstursbraut KK á laugardag. Fyrir keppnina mátti litlu muna á milli Gunnlaugs Jónassonar og Braga Þórs Pálssonar, en Bragi leiddi Íslandsmótið með 112 stig fyrir keppnina.

Átta keppendur mættu á ráslínu og var keppt í tveimur lotum. Gunnlaugur sýndi gamalkunna takta í fyrri lotunni með glæsilegum sigri en Örn Þ. Kjærnested kom honum næstur. Í síðari lotunni var það Bragi Þór Pálsson sem kom fyrstur í mark og náði Gunnlaugur þar öðru sæti og innsiglaði þannig sigur dagsins og um leið Íslandsmeistaratitilinn 2022.

Gunnlaugur átti einnig hraðasta hring, en hann ók brautina á 1:40,558.  Lokastig eftir keppnina voru þannig að Gunnlaugur endaði með 147 stig, Bragi með 143 stig og Tómas Jóhannesson með 104 stig.

Mikið starf á brautinni og spennandi tímar framundan.

Það er búin að vera þétt dagskrá á keppnisbrautum Kvartmíluklúbbsins þetta árið, margar keppnir hafa verið haldnar og hafa þátttakendur sjaldan verið fleiri, meðal annars metþátttaka í King of the Street á dögunum og yfir fjörutíu æfingar í hringakstri bíla og mótorhjóla. Undirbúningur fyrir næsta tímabil er í hámarki þessi misserin og má reikna með líflegu tímabili 2023 með fleiri keppnistækjum og pakkaðri dagskrá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert