Harma afsögn: Ekkert liggi fyrir um refsivert athæfi

Stjórnin segir niðurstöðuna hafa verið þá að málið skyldi niður …
Stjórnin segir niðurstöðuna hafa verið þá að málið skyldi niður falla. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Stjórn Fimleikasambands Íslands kveðst harma afsögn formanns sambandsins, Kristins Arasonar, sem sagði af sér á fundi fyrr í kvöld.

Í yfirlýsingu frá stjórninni segir að henni finnist það miður að afsögnin verði til þess að einkamálefni séu dregin fram í opinbera umfjöllun, og að grunur falli á nokkra einstaklinga sem starfi við þjálfun á vegum sambandsins.

„Afsögnin er sögð hafa komið til vegna meints ölvunaraksturs eins af landsliðsþjálfurum FSÍ,“ segir í yfirlýsingunni.

„Ágreiningur um ráðningarmál þjálfara voru vissulega ástæða afsagnar formannsins en meintur ölvunarakstur þjálfarins hafði mjög lítið með hana að gera, samkvæmt hans eigin orðum. Um er að ræða langvarandi ágreining um val á landsliðsþjálfara.“

Ekki lengur að sinna störfum sem þjálfari um kvöldið

Í framhaldinu kveðst stjórnin vilja leiðrétta rangar staðhæfingar, sem hún segir hafa komið fram, og upplýsa um hvernig í málinu liggi:

„Þannig var að Fimleikasambandinu barst tölvupóstur í byrjun júlímánaðar sl. þar sem fram kom ásökun um meintan ölvunarakstur eins af landsliðsþjálfurum FSÍ eftir afmælisfögnuð í miðborg Reykjavíkur, þar sem viðkomandi einstaklingur var á meðal gesta.

Norðurlandamótinu í fimleikum sem fram fór í Kópavogi í júlí hafði lokið fyrr um daginn og hafði þjálfarinn sótt lokahóf þess fyrr sama kvöld. Hann var því ekki lengur að sinna störfum sem landsliðsþjálfari þegar hann sótti umrætt afmælissamkvæmi síðar sama kvöld.

Tölvupósturinn þar sem ásökunin kom fram var framsendur til aga- og siðanefndar FSÍ sem tók málið fyrir í kjölfarið. Þjálfarinn neitar að hafa ekið undir áhrifum. Framburði annarra vitna úr umræddu einkasamkvæmi bar ekki saman. Niðurstaða aga- og siðanefndarinnar var að málið skyldi niður falla. Ekkert liggur því fyrir um refsivert athæfi.“

Stjórnin kveðst þá harma fréttaumfjöllun um ölvunarakstur þjálfara á vegum FSÍ „án nokkurs fyrirvara um hvað sé hæft í þeim staðhæfingum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert