Carlsen tjáir sig um Niemann

Magnus Carlsen og Hans Niemann að tafli.
Magnus Carlsen og Hans Niemann að tafli. Mynd/Lennart Ootes

Magnus Carlsen, heimsmeistari í skák, hefur nú tjáð óbeint sig um skákina sem hann gaf gegn Bandaríkjamanninum Hans Niemann eftir að hafa aðeins leikið einum leik. 

„Því miður get ég ekki sagt neitt um þetta beint en fólk getur dregið eigin ályktanir og hefur þegar gert það. Ég verð að segja, að taflmennska Niemanns er mjög eftirtektarverð og ég tel að lærifaðir hans, Maxim Dlugy, hafi staðið sig afar vel," sagði Carlsen við skákvefinn chess.com.

Vísan Carlsens til Dlugys hefur vakið athygli. Norska blaðið VG hefur eftir Atle Grønn, skákskýranda norska ríkisútvarpsins, að Dlugy sé þekktur í skákheiminum, einkum fyrir árangur í hraðskák og netskák en einnig sé vitað að hann hafi haft rangt við og hafi ekki gott orð á sér.

Emil Sutovsky, framkvæmdastjóri Alþjóða skáksambandsins, FIDE, sagði við Chess.com að vænta megi yfirlýsingar frá sambandinu eftir nokkra daga.

Carlsen ákvað að hætta keppni á Sinqufield-mótinu í St. Louis fyrr í mánuðinum eftir að hann tapaði fyrir Niemann. Af yfirlýsingum Carlsens mátti ráða að hann teldi að Niemann hefði haft rangt við, en ekki hefur verið hægt að sanna þær ásakanir.

Deilan komst svo aftur í sviðsljósið sl. mánudag en þá mættust Carlsen og Niemann aftur á Julius Baer-mótinu og ákvað Carlsen að gefa skákina óvænt í öðrum leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert