Vilja áfram meina Rússum og Hvít-Rússum þátttöku

Lárus Blöndal, formaður ÍSÍ.
Lárus Blöndal, formaður ÍSÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Norræn íþróttasamtök, ólympíunefndir og íþróttasamtök fatlaðra, héldu sinn árlega fund í Osló dagana 22. - 23. september sl. Á þeim fundi var yfirlýsing samþykkt varðandi stöðu mála í Úkraínu.

Yfirlýsingin er til komin vegna nýjustu vendinga í stríði Rússa við Úkraínu síðustu daga og hótanir um beitingu kjarnorkuvopna.

Yfirlýsingin hefur þegar verið send til Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC), Evrópusambands Ólympíunefnda (EOC), Heimssambands Ólympíunefnda (ANOC), Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra (IPC) og Evrópuhluta IPC (EPC).

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

„Norræn íþróttasamtök, ólympíunefndir og íþróttasamtök fatlaðra álykta að innrás Rússlands í Úkraínu brjóti gróflega gegn alþjóðalögum.

Árásir Rússa í Úkraínu eru að stigmagnast. Við slíkar aðstæður er það óviðunandi að greiða götuna fyrir alþjóðlega íþróttaþátttöku Rússa og Hvít-Rússa. Við stöndum þétt saman í afstöðu okkar. Nú er ekki rétti tímapunkturinn til að íhuga endurkomu þeirra.

Við skorum á ólympíuhreyfinguna og íþróttasamtök fatlaðra og öll alþjóðleg íþróttasamtök að halda áfram að sýna samstöðu með úkraínsku þjóðinni og kröfunni um frið. Við styðjum áfram við tilmæli okkar um að allir rússneskir og hvítrússneskir íþróttamenn og embættismenn fái ekki að taka þátt í alþjóðlegum íþróttum.“

Yfirlýsing var samþykkt af formönnum eftirfarandi stofnana:

Danmörk

Danska Ólympíunefndin og íþróttasambandið, Hans Natorp

Danska Ólympíunefnd fatlaðra, John Petersson

Finnland

Finnska Ólympíunefndin, Jan Vapaavuori

Finnska Ólympíunefnd fatlaðra, Sari Rautio

Ísland

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Lárus Blöndal

Íþróttasamband fatlaðra, Þórður Árni Hjaltested

Noregur

Norska Ólympíu- og Ólympíunefnd fatlaðra og Íþróttasambandið, Berit Kjøll

Svíþjóð

Sænska Ólympíunefndin, Mats Årjes

Sænska íþróttasambandið, Björn Eriksson

Sænska Ólympíunefnd fatlaðra, Åsa Llinares Norlin

Grænland

Íþróttasamband Grænlands, Nuka Kleemann

Færeyjar

Íþróttasamband Færeyja og Ólympíunefnd, Elin Heðinsdóttir

Ólympíunefnd fatlaðra í Færeyjum, Petur Elias Petersen

Álandseyjar

Íþróttasamband Álandseyja, Anders Ingves

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert