Gamla ljósmyndin: Kröftugur Borgnesingur

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Borgnesingurinn Íris Grönfeldt setti sterkan svip á íþróttalífið hérlendis á níunda áratugnum. Íris var í fremstu röð í spjótkasti og er tvöfaldur ólympíufari í greininni. Keppti hún í spjótkasti á Ólympíuleikunum í Los Angeles árið 1984 og í Seoul árið 1988. 

Íris hafnaði í 22. sæti í Los Angeles með 48,70 metra og 26. sæti með 54,28 metra í Seoul. 

Meðfylgjandi mynd af Írisi í undirbúningi hennar fyrir leikana árið 1988 tók Emilía Björg Björnsdóttir sem myndaði árum saman fyrir Morgunblaðið. 

Íris gat kastað geysilega langt á góðum degi og sýndi það í Osló 19. maí árið 1988 þegar hún kastaði spjótinu 62,02 metra og setti Íslandsmet. 

Sprengikrafturinn í Írisi var óumdeildur því hún setti Norðurlandamet í ólympískum lyftingum árið 1988 þegar hún lyfti samtals 167,5 kg í 67,5 kílógramma flokki. Hefði það dugað í 4. sæti á HM í þessum þyngdarflokki.

Íris keppti á heimsmeistaramóti í ólympískum lyftingum og hafnaði í 10. sæti með því að lyfta 140 kg samtals.

 Íþróttahreyfingin fékk að njóta krafta Írisar eftir að keppnisferlinum sleppti og var hún sæmd gullmerki UMFÍ fyrir starf í þágu frjálsíþrótta á Íslandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert