Þrír Íslendingar á meðal tíu efstu í stóru fjallahlaupi

Þorbergur Ingi Jónsson, Þorsteinn Roy Jóhannsson og Snorri Björnsson.
Þorbergur Ingi Jónsson, Þorsteinn Roy Jóhannsson og Snorri Björnsson. Ljósmynd/Aðsend

Þorbergur Ingi Jónsson hafnaði í öðru sæti í 59 kílómetra fjallahlaupi, sem er hluti af UTMB-hlaupaseríunni, í Nice í Frakklandi í dag. Þorsteinn Roy Jóhannsson og Snorri Björnsson höfnuðu þá í áttunda og níunda sæti í hlaupinu.

UTMB-hlaupaserían er sterkasta fjallahlaupamótasería heims.

Þorbergur Ingi kom annar í mark á 6 klukkustundum, 8 mínútum og 10 sekúndum en langfyrstur í mark kom Kínverjinn Tao Luo á 5 klukkustundum, 54 mínútum og 5 sekúndum.

Þorsteinn Roy kom áttundi í mark á sex klukkustundum, 27 mínútum og 2 sekúndum.

Snorri kom níundi í mark, aðeins tíu sekúndum á eftir Þorsteini Roy, á sex klukkustundum, 27 mínútum og 12 sekúndum.

Til gamans má geta að Þorbergur Ingi er þjálfari þeirra Þorsteins og Snorra, og getur því verið verulega sáttur með niðurstöðu hlaupsins.

Alls tóku 1.500 manns þátt og árangur íslensku þremenninganna því ansi hreint magnaður.

Eftir blíðskaparveður í suður Frakklandi síðustu daga var eins og hellt væri úr fötu þegar flautað var af stað í morgun. Fimmtán íslendingar voru skráðir og hlaupið var um 59 kílómetrar með 3300 metra hækkun, en hæðarmetrarnir svara til tæplega sex ferða upp og niður frá Steini á Esjunni.

mbl.is