Glódís hélt hreinu og Cecilía aftur í hópnum

Glódís Perla Viggósdóttir.
Glódís Perla Viggósdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslendingaliðið Bayern Munchen vann 3:0 heimasigur gegn Werder Bremen í annarri umferð þýsku úrvalsdeild kvenna í fótbolta í dag.

Glódís Perla Viggósdóttir stóð vaktina í vörninni og lék allan leikinn en það bar til tíðinda að Cecilía Rán Rúnarsdóttir, landsliðsmarkvörðurinn ungi, var í leikmannahóp Bayern í fyrsta sinn frá því að hún fingurbrotnaði í sumar og missti því af EM.

Bayern er með fjögur stig eftir tvær umferðir.

Þá lék Anna Kristjánsdóttir allan leikinn í vörn Inter Mílanó sem vann 2:0 útsigur á Sampdoria í ítölsku A-deildinni. Inter situr á toppi deildarinnar með tíu stig eftir fjóra leiki. 

Diljá Ýr Zomers lék allan leikinn fyrir Norrköping sem vann 3:0 heimasigur gegn Team TG í sænsku B-deildinni. Norrköping er í fjórða sæti með 45 stig, fimm stigum á eftir toppliði Vaxjö.

Hildur Antonsdóttir byrjaði leikinn fyrir Fortuna Sittard er liðið beið 1:0 ósigur gegn Feyenoord á heimavelli í hollensku A-deildinni. Hildur fór af velli þegar sjö mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir var þá ekki í leikmannahóp Paris SG er liðið vann 2:1 heimasigur gegn Fleury í frönsku A-deildinni. Parísarliðið er með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert