Sigurður vann járnmanninn í Barcelona

Sigurður Örn Ragnarsson fagnar eftir að hann kom í mark …
Sigurður Örn Ragnarsson fagnar eftir að hann kom í mark í gær. Ljósmynd/triathlon.is

Hin árlega járnmannskeppni í Barcelona fór fram í gær og þar gerði Sigurður Örn Ragnarsson úr Breiðabliki sér lítið fyrir og vann heildarkeppnina. Var hann að taka þátt í heilum járnmanni í fyrsta sinn.

Syntir voru 3,8 kílómetrar í sjónum fyrir utan Calella, því næst hjólað með ströndinni í átt að Barcelona og til baka og sú leið farin tvisvar, samtals 180 kílómetrar. Að lokum var svo hlaupinn rúmlega 10 kílómetra hringur fjórum sinnum til þess að hægt væri að ljúka þrautinni í maraþonhlaupi. 

Sigurður Örn vann heildarkeppnina á tímanum 8 klukkutímar, 42 mínútur og 1 sekúnda og var rúmum sex mínútum á undan næsta manni. Alls tóku 1610 karlar þátt í keppninni að þessu sinni.

Sigurður synti á tímanum 49:40, hjólaði á tímanum 4:30:10 og hljóp maraþonið á tímanum 3:14:15. Þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingur sigrar heildarkeppni í Ironman og árangurinn veitir honum jafnframt þátttökurétt í sínum aldursflokki á heimsmeistaramótinu í Ironman sem fer fram á Hawaii í október á næsta ári.

Þetta var fyrsta járnmannskeppni Sigurðar en hann hefur oft áður keppt í hálfum járnmanni og haft yfirburði í þríþrautarkeppnum hér á landi.

mbl.is