Hársbreidd frá silfrinu í bekk

Viktor Samúelsson stillir upp fyrir hnébeygjuna þar sem hann átti …
Viktor Samúelsson stillir upp fyrir hnébeygjuna þar sem hann átti þrjár öruggar lyftur, öll ljós dómgæslunnar hvít í öllum lyftum. Ljósmynd/White Lights Media

Viktor Samúelsson kraftlyftingamaður varð í gær í 11. sæti af 25 keppendum í -105 kg flokki fullorðinna á Evrópumeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum í Skierniewice í Póllandi.

Hóf Viktor leika með 265 kg í hnébeygju og fylgdi því eftir með 275 og 280, fékk allar lyfturnar gildar með samhljóða áliti dómenda og fóru 280 kílóin einkar örugglega upp.

Í bekkpressu opnaði Viktor svo örugglega með 190 kg, fór því næst í 200 sem fóru nokkuð sannfærandi sömu leið, öll ljós hvít frá dómurunum þremur. Ákvað hann að lokum að láta vaða í 205 í þriðju og síðustu lyftunni, þyngd sem hefði skilað honum silfrinu í bekk hefði hún farið upp. Og upp fór hún reyndar en Viktor lyfti þá bakhlutanum örlítið upp af bekknum sem telst ógildingarsök og þar við sat.

Vissi að beygjan yrði áskorun

Að lokum var komið að réttstöðulyftunni þar sem Viktor reif 300 kg upp af öryggi í fyrstu lyftu en missti svo 312,5 í efstu stöðu í annarri lyftunni. Reyndi hann þá að lokum við 320 í lokalyftunni en sú þyngd vildi ekki upp í þetta sinnið. Lokatala hjá Viktori því 780 kg í samanlögðu eftir hörkuframmistöðu.

„Ég vissi fyrir fram að beygjan yrði ströggl vegna hnjámeiðsla en hún gekk nokkuð vel þrátt fyrir það,“ sagði Viktor eftir átökin í gær. Stóra markmiðið hans á þessu móti hafi verið að reyna að komast á pall í bekkpressunni þar sem hann var hársbreidd frá silfurmedalíu. „En því miður voru dómararnir ekki nógu sáttir í þetta skiptið,“ sagði hann um þá tilraun.

Verðlaunaafhending í -105 kg flokki, Viktor í blárri peysu hægra …
Verðlaunaafhending í -105 kg flokki, Viktor í blárri peysu hægra megin við miðju. Ljósmynd/Hinrik Pálsson

 „Réttstaðan gekk ekki nógu vel í dag, ég var í vandræðum með greipina og stöngin rann úr höndunum á mér með 312,5 kg. Ég hafði engu að tapa í síðustu tilraun og setti 320 kg á stöngina en þau vildu ekki upp. Ég á inni í öllum greinunum og rúmlega það,“ sagði Viktor Samúelsson að lokum.

Í dag keppa síðustu íslensku keppendurnir á EM, þau Aron Friðrik Georgsson í -120 kg flokki og Kristín Þórhallsdóttir í -84 kg þar sem reiknað er með einvígi um gullið milli hennar og hinnar pólsku Agötu Sitko.

mbl.is