Réðst á síðustu lyftunni

Hnébeygjan er sterkasta grein Kristínar enda var gullið í greininni …
Hnébeygjan er sterkasta grein Kristínar enda var gullið í greininni hennar í dag þrátt fyrir að hún sæti uppi með byrjunarlyftu sína sem lokaþyngd eftir að hafa misst tvær síðari lyfturnar. Ljósmynd/SBD

„Þetta fór nú ekki alveg eins og ég ætlaði mér. Þetta var silfur en þetta var töluvert frá mínu besta,“ segir Kristín Þórhallsdóttir, Borgfirðingurinn öflugi, sem gerði góða för á EM í klassískum kraftlyftingum í Skierniewice í Póllandi í dag, sama hvað hún segir sjálf.

Snýr Kristín heim með allar mögulegar útgáfur verðlaunapeninga, gull, silfur og brons, og tvo silfurpeninga, annan fyrir samanlagðan árangur og hinn í réttstöðulyftu, gull í hnébeygju og brons í bekkpressu. Um þetta allt saman var fjallað hér nú fyrir skemmstu.

Meira þá af Kristínu sjálfri. „Ég ætlaði náttúrulega að fara í bætingar,“ segir dýralæknirinn hamrammi, „og það hljómar kannski grimmt að segja það en þetta er eiginlega með lélegustu frammistöðumótum á mínum ferli hvað gildar lyftur snertir,“ segir hún og vísar til þess að hún fékk aðeins fimm lyftur af níu gildar, „sem er mjög slakt miðað við hvað ég hef verið að gera á hinum mótunum,“ heldur Kristín áfram.

Kristín með gullið fyrir hnébeygju, erkikeppinauturinn Agata Sitko frá Póllandi …
Kristín með gullið fyrir hnébeygju, erkikeppinauturinn Agata Sitko frá Póllandi með brons og hin breska Ziana Azariah á silfurpalli. Ljósmynd/Hinrik Pálsson

Hún er ekki yfir sig ánægð með 575 kg í samanlögðu eftir að hafa átt 580 kg á HM í júní og 590 kg á frönsku boðsmóti, Girl Power, sem hún keppti á í september. „Ég taldi mig vera upp á 600 núna miðað við hvernig gengið hefur á æfingum upp á síðkastið, en ég var óheppin í beygjunni, þeir voru svolítið grimmir á dýptinni svo ég sökkti mér extra djúpt í beygjunum og missti einhvern veginn spennuna í botninum, þar með missti ég þyngdina sem ég ætlaði að taka í annarri tilraun og missti hana aftur í þriðju,“ segir Kristín og á þar við 227,5 kg. Hafði hún þá áður lyft 217,5 kg sem engu að síður dugðu fyrir gullverðlaunum í greininni. Kristín hafði hins vegar ætlað sér að reyna við Evrópumetið, 230 kg, en svo fór ekki í dag.

Réðst á lokalyftunni

„Ég sat því uppi með opnunarþyngdina í beygju og minn aðalandstæðingur var Agata Sitko frá Póllandi sem ég vissi að væri slökust í beygju en best í bekk sem er akkúrat öfugt við mig, en svo erum við nokkuð jafnar í réttstöðunni,“ segir Kristín sem taldi sig því þurfa að eiga gott forskot á Pólverjann eftir hnébeygjuna og útkoman þar því vonbrigði.

Úrslitin í -84 kg flokki réðust í lokalyftunni í réttstöðulyftu. …
Úrslitin í -84 kg flokki réðust í lokalyftunni í réttstöðulyftu. Reyndi Kristín þar við 245,5 kg sem dugað hefðu til gullverðlauna í samanlögðu en náði ekki að læsa í lokastöðu lyftunnar. Ljósmynd/SBD

„Ég hélt því að ég væri búin að missa þetta frá mér en svo missir hún tvær bekkpressur og þá vorum við aftur orðnar frekar jafnar. Þetta réðst því á síðustu réttstöðulyftunni, hún klikkaði á síðustu lyftunni og var þá örfáum kílóum fyrir ofan mig svo ég ætlaði að taka það sem þyrfti að taka,“ heldur Kristín lýsingu sinni áfram.

Barðist í gegnum þetta

Það var lokalyfta Kristínar og auðnaðist henni ekki að læsa skrokknum í uppréttri stöðu undir lok lyftunnar með 245,5 kg. Ellegar hefði gullið í samanlögðu orðið hennar í dag. „Á góðum degi hefði ég tekið þessa þyngd, á franska mótinu í haust tók ég 242,5 og fannst það bara nokkuð létt,“ segir hún.

„Vonin var sem sagt aldrei úti fyrr en þarna síðast, þó að mér hefði gengið illa gekk henni illa líka og var að missa lyftur. Maður barðist sem sagt í gegnum þetta þótt planið væri ekki að ganga upp,“ heldur lyftingakempan áfram.

„Maður barðist sem sagt í gegnum þetta þótt planið væri …
„Maður barðist sem sagt í gegnum þetta þótt planið væri ekki að ganga upp.“ Borgfirðingurinn hlaðinn málmi eftir rimmuna. Ljósmynd/Hinrik Pálsson

Þriðja tilraun Kristínar í bekkpressu, 125 kg, var dæmd ógild og kom þar upp einhver misklíð milli dómenda. „Þau voru ekki sammála, einn dómarinn sagði að ég hefði ekki fylgt einhverri skipun og við fengum ekkert svar um hvaða skipun það var en málinu lauk bara þar og þau réðu,“ segir Kristín, en skipanir frá dómurum í bekkpressu eru þrjár, start, pressa og skila í rekka. „Þau vildu meina að ég hefði verið eitthvað aðeins of fljót á mér en við fengum engin almennileg svör við því,“ segir hún af lokalyftunni umdeildu.

Heiður að komast á pall

„Mín frammistaða í dag var bara upp á silfrið og ég tek því,“ segir Kristín af æðruleysi, „ég var svolítið þung á þessu móti, hugur og líkami, ég hef svo sem enga skýringu á því, æfingarnar gengu mjög vel fyrir þetta mót svo ég var bjartsýn, en stundum er það bara meira en að segja það að vera í fullri vinnu og með heimili og börn, það er bara búið að vera mikið að gera,“ segir Kristín, dýralæknir í fullu starfi samhliða stífum lyftingum.

Kristín á silfurpallinum eftir glæsilega frammistöðu með 575 kg í …
Kristín á silfurpallinum eftir glæsilega frammistöðu með 575 kg í samanlögðu. Við hlið hennar er pólska bekkpressuvélin Agata Sitko og lengst til hægri á palli hin breska Ziana Azariah. Ljósmynd/Hinrik Pálsson

„En það er alltaf heiður að komast á pallinn og þótt ég hafi átt slakt mót næ ég öruggu silfri,“ segir Kristín sem stefnir ótrauð á Reykjavíkurleikana í janúar en eftir það hyggur hún á hvíld frá keppni fram að HM á Möltu í júní 2023 enda búið að vera skammt stórra högga á milli í keppni hjá henni undanfarið. „Þá kem ég með einhverjar hrikalegar tölur,“ segir Kristín Þórhallsdóttir, lyftingakona úr Borgarfirði og silfurverðlaunahafi í samanlögðu á EM í Skierniewice í Póllandi.

mbl.is