Gamla ljósmyndin: Blað brotið

Morgunblaðið/Bjarni Eiríksson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is halda áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Brotið var blað í sögu íþrótta hjá fötluðum á Íslandi þegar Haukur Gunnarsson var valinn Íþróttamaður Reykjavíkur árið 1988. Síðar hefur þeim Sigrúnu Huld Hrafnsdóttur, Kristínu Rós Hákonardóttur, Jóni Margeiri Sverrissyni og Helga Sveinssyni einnig hlotnast þessi heiður af þeim sem keppt hafa fyrir félög hjá Íþróttasambandi fatlaðra. 

Hefð var fyrir því að borgarstjórinn afhenti Íþróttamanni Reykjavíkur bikarinn og á meðfylgjandi mynd veitir Haukur bikarnum viðtöku úr hendi Davíðs Oddssonar sem þá var borgarstjóri. Myndina tók Bjarni Eiríksson sem lengi myndaði fyrir Morgunblaðið. 

Segja má að Haukur Gunnarsson hafi slegið í gegn fyrir alvöru árið 1988 og varð þá landsþekktur fyrir afrek sín á hlaupabrautinni. Haukur hafnaði í 3. sæti í kjöri á íþróttamanni ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna fyrir árið 1988. „Ég veit að mörgum hefur fundist að Haukur Gunnarsson ætti að standa í mínum sporum. Fatlaðir íþróttamenn unnu hug og hjörtu þjóðarinnar,“ sagði Einar Vilhjálmsson í viðtali við Morgunblaðið eftir að hafa hlotið sæmdarheitið Íþróttamaður ársins fyrir árið 1988. 

Afrek Hauks voru mjög í umræðunni í lok árs 1988. „Með því að setja Hauk Gunnarsson í þriðja sæti í kjörinu, sem lýst var í gær, hafa Samtök íþróttafréttamanna sýnt viðleitni til þess að viðurkenna hlutgengi fatlaðra íþróttamanna - en því miður báru þeir ekki gæfu til þess að stíga skrefið til fulls,“ skrifaði íþróttablaðamaðurinn Víðir Sigurðsson í viðhorfspistli í Dagblaðinu Vísi hinn 29. desember 1988. 

Haukur Gunnarsson var líklega á hátindi ferils síns sem spretthlaupari árið 1988. Hann hljóp 100 metrana á 12,8 sekúndum á Paralympics og sigraði í greininni. Með þessum tíma jafnaði hann eigið heimsmet og setti mótsmet. Haukur bætti síðan við bronsverðlaunum í 200 metra hlaupi. 

„Það var stórkostleg tilfinning að standa á verðlaunapallinum með gullverðlaunin,“ sagði Haukur í samtali við Morgunblaðið. Hann hljóp 100 metrana þrívegis á leikunum, í undanriðli, í undanúrslitum og úrslitum. Ávallt hljóp hann undir 13 sekúndum. 

Haukur Gunnarsson var útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ hinn 29. desember árið 2020. 

mbl.is