„Hálfótrúlegt og súrrealískt“

Kristín Þórhallsdóttir hefur átt mjög góðu gengi að fagna og …
Kristín Þórhallsdóttir hefur átt mjög góðu gengi að fagna og kveður það ótrúlegt að fyrir 2019 vissi hún varla neitt um kraftlyftingar. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Kristín Þórhallsdóttir og Guðfinnur Snær Magnússon eru kraftlyftingafólk ársins 2022. Þetta tilkynnti Kraftlyftingasamband Íslands á heimasíðu sinni á dögunum. Er Kristín kraftlyftingakona ársins annað árið í röð en hún keppir í -84 kg flokki í klassískum kraftlyftingum fyrir Kraftlyftingafélag Akraness.

„Þetta er alltaf heiður, að vera valin, það er ekkert sjálfgefið þar,“ segir kraftlyftingakona ársins í samtali við mbl.is, „manni finnst hálfótrúlegt og súrrealískt að maður sé á þessum stað í dag, ég byrjaði náttúrulega bara í kraftlyftingum 2019 og þá bara sem líkamsrækt og líka auðvitað til að bæta eigin andlega heilsu,“ segir Kristín sem eignaðist langveikan son árið 2018 sem varð henni eðlilega áfall.

„Svo er maður allt í einu kominn á þennan stað í dag, að vera bara í fremstu röð á Íslandi og meðal þeirra fremstu í heiminum í íþrótt sem ég vissi ekkert mikið um fyrr en 2019,“ segir dýralæknirinn úr Borgarfirði sem er nýbakaður silfurverðlaunahafi af Evrópumeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum í Skierniewice í Póllandi þar sem rimma hinnar pólsku Agötu Sitko réðst á síðustu lyftunni.

Kristín Þórhallsdóttir lyftir 220 kg í beygju á EM í …
Kristín Þórhallsdóttir lyftir 220 kg í beygju á EM í Vä­sterås í Svíþjóð í desember í fyrra. Ljósmynd/EPF/Kraftlyftingasamband Evrópu

Fram undan hjá Kristínu eru Reykjavíkurleikarnir í janúar og í kjölfarið heimsmeistaramótið á Möltu í júní, „ég er ekki búin að ákveða hvort ég tek einhver innanlandsmót í millitíðinni, mér fannst ég skilja aðeins eftir á pallinum á EM [í Póllandi] og ég vona að ég nái að sýna það á Reykjavíkurleikunum í janúar,“ segir Kristín að skilnaði.

„Maður vill auðvitað alltaf verða betri“

„Þetta er auðvitað eitt af þessum markmiðum sem maður hefur stefnt að síðan maður byrjaði að æfa,“ segir Guðfinnur sem gefur sér tíma í stutt spjall á milli þess sem hann útbýr kæsta skötu ofan í landann en Guðfinnur starfar sem fisksali og alltmuligmaður, eins og það heitir, hjá matreiðslufyrirtækinu Höndlaranum.

„Maður er búinn að horfa á Auðun [Jónsson] og Júlla [Júlían J.K. Jóhannsson] vinna þessa titla ár eftir ár og maður horfir auðvitað svolítið upp til þeirra, en maður vill auðvitað alltaf verða betri en þeir sem koma áður, ég held að það sé innprentað í flesta íþróttamenn,“ segir Guðfinnur.

Guðfinnur Snær Magnússon segist hafa horft á Auðun og Júlla …
Guðfinnur Snær Magnússon segist hafa horft á Auðun og Júlla hljóta titilinn ítrekað og segist hafa litið upp til þeirra en hann vilji verða betri en þeir sem á undan fóru. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann er nýbúinn að vinna til bronsverðlauna á heimsmeistaramóti fullorðinna í kraftlyftingum í Danmörku í nóvember þar sem hann hafnaði í fjórða sæti á eftir kraftlyftingamönnum á heimsmælikvarða.

Næsta verkefni Guðfinns er þó ekki beintengt stálinu. „Ég á von á barni núna í apríl svo það er næsta verkefni hjá mér en eftir það er stefnan örugglega sett á HM í Lettlandi í nóvember á næsta ári,“ segir Guðfinnur og nefnir allt annað HM en Kristín, en þau keppa í ólíkum greinum, hún í klassískum kraftlyftingum en hann í kraftlyftingum með búnaði, stálbrók og bekkpressuslopp svokölluðum.

Guðfinnur í neðstu stöðu í hnébeygjunni á HM í Stavanger …
Guðfinnur í neðstu stöðu í hnébeygjunni á HM í Stavanger í Noregi í fyrra þar sem hann lyfti 380 kg og reyndi í tvígang við 402,5 sem ekki vildu upp í þetta sinnið. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Guðfinnur útilokar þó ekki einhver innanlandsmót í millitíðinni og æfir að sjálfsögðu af krafti, „já já já, alltaf“ segir hann að lokum og við hleypum kraftlyftingamanni ársins aftur í skötuna.

mbl.is
Loka