Fá 100.000 krónur fyrir að setja Íslandsmet

Fríða Rún Þórðardóttir.
Fríða Rún Þórðardóttir. mbl.is/Sigurdur Unnar Ragnarsson

Allir þeir sem setja Íslandsmet á Stórmóti ÍR í frjálsum íþróttum um komandi helgi frá 100.000 krónur í verðlaun.

Þá fá þeir, sem ná lágmarki fyrir stórmót greiddar 300.000 krónur í verðlaunafé en þetta er í fyrsta sinn sem veittar eru slíkir fjárhagshvatar á frjálsíþróttamóti á Íslandi að því er fram kemur í tilkynningu frá frjálsíþróttadeild ÍR.

„Okkur langaði til þess að koma með eitthvað nýtt inn í frjálsíþróttaheiminn hérna heima og þetta varð lendingin,“ sagði Fríða Rún Þórðardóttir, formaður frjálsíþróttadeildar ÍR, í samtali við mbl.is.

Búin að vera lengi í frjálsum

„Ég er búin að vera tengd frjálsum íþróttum í fjölda mörg ár og búin að horfa á þetta frá ýmsum hliðum, bæði sem íþróttamaður, móðir og nú sem formaður frjálsíþróttadeildarinnar.

Ég veit hvað er hægt að gera til þess að styðja við afreksíþróttafólkið okkar og það kostar háar fjárhæðir að vera með afreksíþróttafólk á sínum snærum. Það kostar líka pening að styðja við bakið á þeim í þeirra keppnisferðum. 

Frjálsar íþróttir eru frábær íþrótt að æfa og þetta er mjög gott umhverfi fyrir börn. Það er líka gott að ala börnin sín upp í þessu umhverfi og við vildum því vekja athygli íþróttinni meðal annars með þessu framtaki,“ sagði Fríða Rún.

Erfitt að fá styrki frá fyrirtækjum

Verkefnið er samstarfsverkefni með Regus sem hefur stutt vel við bakið á frjálsíþróttadeild ÍR.

„Við búum vel að því að vera í samstarfi með Regus í þessu verkefni en fyrirtækið sérhæfir sig í leigu á skrifstofuhúsnæði fyrir einyrkja. Á sama tíma er orðið mjög erfitt að fá fyrirtæki til þess að styðja við bakið á íþróttahreyfingunni en vonandi vekur þetta framtak athygli fleiri fyrirtækja um það hvað hægt sé að gera,“ sagði Fríða Rún í samtali við mbl.is.

Fríða Rún Þórðardóttir, lengst til hægri, á Meistaramóti Íslands sumarið …
Fríða Rún Þórðardóttir, lengst til hægri, á Meistaramóti Íslands sumarið 2021 þar sem hún hafnaði í þriðja sæti í 10.000 metra hlaupi kvenna. Sigurdur Unnar Ragnarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert