Íslandsvinur kastaði Kansas inn í úrslit á öðrum fætinum

Patrick Mahomes var að vonum ánægður í leikslok.
Patrick Mahomes var að vonum ánægður í leikslok. AFP/David Eulitt

Átta liða úrslitum NFL-deildarinnar í ameríska fótboltanum lauk í nótt. Í Þjóðadeildinni valtaði lið Philadeilphia Eagles yfir lið New York Giants, 38:7, þar sem Jalen Hurts, leikstjórnandi Philadelphia kastaði fyrir tveimur snertimörkum. Philadelphia mun hýsa úrslitaleik Þjóðadeildarinnar þar sem liðið mætir San Francisco 49ers sem hafði betur gegn Dallas Cowboys, 19:12, þrátt fyrir að Dallas hafi skorað tvö snertimörk gegn einu snertimarki San Francisco.

Í Ameríkudeildinni verða það Kansas City Chiefs og Cincinatti Bengals sem mætast í úrslitum. Kansas sigraði Jacksonville Jaguars, 27:20, þar sem leikstjórnandinn og Íslandsvinurinn Patrick Mahomes kastaði fyrir tveimur snertimörkum fyrir Kansas á öðrum fætinum en hann lék meiddur á ökkla. Mahomes er eiginmaður Britt­any Mahomes, sem var bú­sett hér á landi sum­arið 2017 þegar hún lék fótbolta með liði Aft­ur­eld­ing­ar/​Fram.

Það voru svo gestirnir í Cincinatti Bengals með leikstjórnandann Joe Burrow í broddi fylkingar sem sigruðu Buffalo Bills nokkuð örugglega í Buffalo, 27:10. Burrows kastaði fyrir tveimur snertimörkum en Buffalo Bills voru án varnarmannsins Damar Hamlin, sem fékk hjartaáfall í miðjum leik þessara liða í byrjun janúar. Hamlin er kominn á fætur sem betur fer og var meðal áhorfanda í gær.

Úrslitaleikirnir í Þjóðadeild og Ameríkudeild fara fram næsta sunnudag og úrslitaleikurinn sjálfur þar sem leikið verður að venju um Ofurskálina, „SuperBowl LVII“, fer fram 12. febrúar næstkomandi.

Fjölskyldan á brúðkaupsdaginn.
Fjölskyldan á brúðkaupsdaginn.
mbl.is