Halldór í öðru sæti á X-Games

Halldór Helgason.
Halldór Helgason. Ljósmynd/Petter Foshaug

Snjóbrettakappinn Halldór Helgason hafnaði í 2. sæti í keppni í svokölluðu „Knuckle Huck“ á X-Games-leikunum í Aspen í Bandaríkjunum í nótt.

Keppendur fá stig fyrir frumleika, erfiðleikastig, sköpunargáfu, stíl og loks lendingu en keppt er er á sama svæði og keppni í „Big Air“ fer fram.

Keppendur stökkva hins vegar ekki af stökkpalli heldur nýta sér aðkomuna að pallinum til þess að ná lofthæð. Þeir leika svo listir sínar í loftinu og lenda á sama lendingarsvæði og í „Big Air“ keppninni.

Norðmaðurinn Marcus Kleveland fór með sigur af hólmi í nótt og Bandaríkjamaðurinn Dusty Henricksen varð þriðji.

Þetta eru önnur verðlaun Halldórs á X-Games-leikunum sem eru þeir stærstu í snjóbretta- og skíðaheiminum en hann fékk gullverðlaun í keppni í „Big Air“ árið 2010.

 

mbl.is