Brady hættur fyrir fullt og allt

Tom Brady er hættur, í alvöru að þessu sinni.
Tom Brady er hættur, í alvöru að þessu sinni. AFP/Valerie Macon

Leikstjórnandinn Tom Brady hefur tilkynnt að hann sé hættur iðkun ruðnings fyrir fullt og allt.

Brady tilkynnti þetta sjálfur í myndskeiði á Instagram-aðgangi sínum fyrir skemmstu.

Fyrir sléttu ári tilkynnti Brady að hann væri hættur eftir að hafa leikið í tvö ár með Tampa Bay Buccaneers en um miðjan mars sama ár kvaðst hann hættur við að hætta og myndi taka að minnsta kosti eitt tímabil til viðbótar með Tampa, sem hann og gerði.

„Ég kem mér beint að efninu. Ég er að hætta, fyrir fullt og allt,“ sagði Brady í myndskeiðinu.

Hann er sigursælasti leikmaður NFL-deildarinnar í sögunni með sjö sigra í Ofurskálarleiknum, úrslitaleik deildarinnar. Sex þeirra vann Brady með New England Patriots og einn með Tampa árið 2020.

Hann lék í NFL-deildinni í alls 23 tímabil samfleytt en hefur nú ákveðið að láta staðar numið, 45 ára að aldri.

View this post on Instagram

A post shared by Tom Brady (@tombrady)

mbl.is