Gunnar kominn með nýjan andstæðing

Gunnar Nelson snýr aftur í búrið í mars.
Gunnar Nelson snýr aftur í búrið í mars. Ljósmynd/Snorri Björns

MMA-kappinn Gunnar Nelson er kominn með nýjan andstæðing fyrir UFC-bardagakvöldið í Lundúnum þann 18. mars.

Gunnar átti upprunalega að mæta Daniel Rodriguez frá Bandaríkjunum, en hann meiddist á æfingu og er því ekki klár í slaginn gegn Gunnari.

Þess í stað mun Gunnar mæta öðrum Bandaríkjamanni, Bryan Barberena. Barberena hefur unnið 18 bardaga sem atvinnumaður og tapað níu. Hann vann þrjá bardaga í röð, áður en hann tapaði fyrir Rafael Dos Anjos í síðasta bardaga.

Gunnar hefur keppt 24 sinnum sem atvinnumaður, unnið 18 bardaga og tapað fimm. Hann mætti Takashi Sato frá Japan síðast fyrir ári síðan og fagnaði þá sigri, eftir tvö töp í röð.

mbl.is