Hlóð á sig heimsmetum í Búdapest

Elsa ásamt þjálfara sínum Kristleifi Andréssyni sem hún kveður stoð …
Elsa ásamt þjálfara sínum Kristleifi Andréssyni sem hún kveður stoð sína og styttu. Elsa keppir fyrir hönd Massa í Njarðvík. Ljósmynd/Hinrik Pálsson

„Ég byrjaði á að taka 125 kíló í hnébeygjunni, tók bara örugga lyftu svona til að byrja með,“ segir Elsa Pálsdóttir, kraftlyftingakona úr Massa í Njarðvík, sem fyrr í kvöld gerði sér lítið fyrir og setti þrjú heimsmet og eitt Íslandsmet á Evrópumeistaramóti öldunga í klassískum kraftlyftingum sem fram fer þessa viku í Búdapest í Ungverjalandi og eiga Íslendingar sér þar fjóra fulltrúa.

Elsa keppir í aldursflokki 60 til 69 ára sem 28 konur skipuðu í þrekraunum dagsins en þær eru fimm í þyngdarflokki Elsu sem er -76 kg. Elsa á sér ekki langan lyftingaferil, hóf að taka á stálinu árið 2019 en síðan hefur leiðin legið beint upp á við. Ræddi hún við mbl.is eftir að hafa varið heimsmeistaratitil sinn á HM í St. John's í Kanada í október.

„Svo tók ég 138 sem er hálfu kílói yfir heimsmeti. Ég náði henni ekki upp í fyrstu tilraun svo þá var bara að duga eða drepast í næstu tilraun og hún fór upp þá,“ segir Elsa af fyrsta heimsmeti dagsins.

Elsa á verðlaunapallinum. Hún byrjaði seint í stálinu, árið 2019, …
Elsa á verðlaunapallinum. Hún byrjaði seint í stálinu, árið 2019, en hefur varla gert annað en að setja heimsmet síðan. Elsa segir nýliðun í hennar aldurshópi vera á uppleið í lyftingum og tekur fram að sú kredda að lyftingar séu ekki fyrir alla sé á hröðu undanhaldi. Ljósmynd/Hinrik Pálsson



Í bekkpressu opnaði Elsa með 62,5 kg sem var þremur kg frá hennar eigin Íslandsmeti, tók því næst 67,5 og setti þar Íslandsmet. Reyndi hún að lokum við 70 kg sem ekki fóru upp í þetta sinnið.

„Í réttstöðunni var ég með mikla samkeppni en byrjaði á að taka 155 sem var örugg lyfta,“ segir Elsa af réttstöðunni. Næsta lyfta hennar var 163 kg þar sem hún setti heimsmet, hvort tveggja greininni og samanlögðu. Adam var þó ekki lengi í Paradís í það sinnið því þrælöflugur finnskur keppninautur hennar lyfti því næst 167,5 kg og setti þar nýtt heimsmet.

Elsa var ekki á því að láta þetta slá sig út af laginu og lét hlaða 170 á stöngina ótrauð, lyfti því og setti nýtt heimsmet, þriðja heimsmet dagsins þar með komið í bækurnar, hnébeygja, réttstaða og samanlagt, en í raun má segja að heimsmetin hafi verið fjögur að því meðtöldu sem stóð aðeins í nokkrar mínútur. En allt er þegar þrennt er segir máltækið.

Tekið á því í guðsgreininni, bekkpressunni. Þar setti Elsa Íslandsmet, …
Tekið á því í guðsgreininni, bekkpressunni. Þar setti Elsa Íslandsmet, 67,5 kg. Ljósmynd/Hinrik Pálsson

„Mér líður bara ljómandi vel, það var mikill léttir að ná þessum 138 [í hnébeygjunni], ég hef verið að taka meira á æfingum en hef verið að ströggla pínulítið við dýptina því nárameiðsli hafa verið að stríða mér. En Íslandsmetið mitt er 142,5, það var hins vegar ekki gilt heimsmet þegar ég setti það af því að það var ekki sett á alþjóðlegu móti,“ segir Elsa frá.

„Þessi finnska kom inn í aldursflokkinn núna um áramótin, hún er fædd 1963. Ég hafði svolítið forskot á hana í hnébeygjunni, ég átti hálfu kílói meira en hún í bekknum og við áttum jafnt í réttstöðunni fyrir þetta mót þannig að þarna var ég kominn með svolítið mikla samkeppni,“ segir Elsa af Finnanum en hún er þremur árum eldri en sú finnska, fædd 1960.

„Mér fannst ótrúlega sætt að setja heimsmet, sjá það tekið af mér og ná því svo aftur,“ segir Elsa og ljómar auðheyrilega af feginleik gegnum símann.

Hvað með undirbúning fyrir þetta mót?

„Hann gekk mjög vel, ég hef verið að lyfta bara mjög vel en hef pínulítið verið að kljást við nárameiðslin og æfingunum var svolítið stillt upp kringum að láta það ekki trufla þetta mót, en annars gekk undirbúningur mjög vel,“ svarar Elsa sem keppir undir handleiðslu þjálfarans Kristleifs Andréssonar, „hann er alveg mín stoð og stytta“, segir Elsa.

Stillt upp fyrir beygjuna. Eitt heimsmeta Elsu í dag var …
Stillt upp fyrir beygjuna. Eitt heimsmeta Elsu í dag var á þeim vettvangi. Ljósmynd/Hinrik Pálsson

Fram undan hjá henni eru rólegar æfingar í nokkrar vikur en draumurinn er að verja heimsmeistaratitilinn frá Kanada í október á þessu ári. „En það mót verður í Mongólíu, það er mikið ferðalag og kostnaður en alla vega ætlum við að stefna á það og hefja undirbúninginn núna eftir nokkrar vikur,“ segir Elsa Pálsdóttir að lokum eftir stórkostlegan árangur á EM öldunga í Búdapest.

Fram undan næstu daga er karlpeningurinn í liðinu og keppa þeir miðvikudag, fimmtudag og laugardag, mbl.is fylgist með.

Allt gefið í neðstu stöðu í beygjunni.
Allt gefið í neðstu stöðu í beygjunni. Ljósmynd/Hinrik Pálsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert