„Núna er bara að halda sér góðum“

Gunnar Nelson snýr aftur í búrið í mars.
Gunnar Nelson snýr aftur í búrið í mars. Ljósmynd/Snorri Björns

MMA-kappinn Gunnar Nelson segir fyrirhugaðan bardaga sinn gegn Bandaríkjamanninum Bry­an Barb­erena leggjast vel í sig en hann hefur í vikunni staðið í ströngum æfingum fyrir bardagann í Lundúnum á laugardaginn.

„Núna er bara að halda sér góðum. Ein til tvær léttar æfingar á dag, en kampið er auðvitað búið að vera langt og strangt,“ segir kappinn í samtali við mbl.is, en hann hefur verið úti síðan á þriðjudag.

Aðspurður segist Gunnar sigurviss en helstu veðbankar eru honum í vil. „Jú, mjög,“ segir hann en Barberena hefur unnið 18 bardaga sem atvinnumaður og tapað níu. Hann vann þrjá bardaga í röð, áður en hann tapaði fyrir Rafael Dos Anjos í síðasta bardaga.

„Hann er þokkalega góður að verjast föllum og góður að standa upp,“ segir Gunnar um andstæðinginn, sem þekktur er fyrir þung högg.

Gunnar er aftur á móti mikill glímukappi og þekktur fyrir að ná andstæðingum sínum í gólfið.

Flýgur strax heim en ætlar að nýta tímann

Keppist Gunnar nú við að halda vigtinni niðri fyrir morgundaginn, þegar hann verður vigtaður.

„Það er bara létt æfing í kvöld og síðan er það bara vakna í fyrramálið, klára að kötta og svo vigtin.“ Að því loknu tekur við lokadagurinn fyrir bardagann, þar sem mikilvægt er að borða og drekka vel.

Kveðst hann spenntur fyrir laugardeginum og þakklátur. „Ég finn alltaf fyrir miklum stuðningi heima og kann rosalega vel að meta það. Það gefur mér mjög mikið.“

Gunnar flýgur frá Englandi strax daginn eftir bardagann en ætlar samt sem áður að gera sér glaðan dag með vinum.

„Ég ætla að fá mér eitthvað að borða niðri í bæ hér í London – gera eitthvað með vinum mínum frá Íslandi áður en ég fer út á völl.“

mbl.is