Strákarnir skoruðu 13 og úrslitaleikur fram undan

Arnar Karvelsson skoraði þrjú mörk í leiknum í kvöld.
Arnar Karvelsson skoraði þrjú mörk í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Sigurganga íslensku strákanna í 3. deild heimsmeistaramóts U18 ára liða í íshokkí hélt áfram í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld þegar þeir burstuðu lið Lúxemborgar í næstsíðustu umferðinni, 13:0.

Ísland er með 12 stig eftir fjóra leiki og Ísrael er með níu stig en liðin mætast í hreinum úrslitaleik í lokaumferðinni á Akureyri á laugardaginn. Íslenska liðinu nægir þar að halda jöfnu í venjulegum leiktíma og tryggja sér eitt stig til þess að vinna riðilinn og fara upp í 2. deildina.

Arnar Karvelsson skoraði þrjú marka íslenska liðsins, Birkir Einisson, Ormur Jónsson og Ólafur Björgvinsson tvö hver og þeir Viktor Mojzyszek, Helgi Bjarnason, Haukur Karvelsson og Uni Blöndal gerðu sitt markið hver.

Tyrkland og Mexíkó eru með sex stig hvort í riðlinum, Bosnía þrjú stig en Lúxemborg hefur tapað öllum sínum leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert