Kolbeinn og Irma í aðalhlutverkum í bikarsigri FH

FH-ingar fagna bikarmeistaratitlinum.
FH-ingar fagna bikarmeistaratitlinum. Ljósmynd/FRÍ

FH-ingar vörðu bikarmeistaratitilinn í frjálsíþróttum innanhúss í gær og unnu þrefaldan sigur í bikarkeppninni í Kaplakrika en FH varð stigahæst í karlaflokki, í kvennaflokki og í samanlögðu.

Heildarstigakeppnin endaði þannig að FH fékk 104,5 stig, ÍR 78, Breiðablik 66, B-lið FH fékk 63,5, lið Fjölnis og UFA fékk 43 stig, lið HSK og Selfoss 39 og Ármann 38 stig.

Í kvennakeppninni fékk FH 51,5 stig, ÍR 40, Breiðablik 37, B-lið FH 35,5, Fjölnir/UFA 21, HSK/Selfoss 18 og Ármann 17.

Í karlakeppninni fékk FH 53 stig, ÍR 38, Breiðablik 29, B-lið FH 28, Fjölnir/UFA 22, Ármann 21 og HSK/Selfoss 21.

Irma Gunnarsdóttir og Kolbeinn Höður Gunnarsson unnu tvær greinar hvort fyrir FH og settu sitt hvort mótsmetið. Kolbeinn Höður hljóp 60 metra á 6,81 sekúndum og Irma stökk 13,16 metra í þrístökki en þau hafa bæði sett Íslandsmet í þessum greinum í vetur.

Irma vann líka sigur í kúluvarpi þó það sé ekki hennar aðalgrein og svo skemmtilega vill til að hún kastaði kúlunni 13,16 metra, eða jafnlangt og hún stökk í þrístökkinu.

Kolbeinn náði besta tíma Íslendings á árinu í 400 metra hlaupi karla þegar hann vann greinina á 47,87 sekúndum.

mbl.is