Með flest uppgjafartök í sínum þyngdarflokki í UFC

Gunnar Nelson.
Gunnar Nelson. Ljósmynd/Snorri Björns

Eftir sigur bardagakappans Gunnars Nelson gegn Bandaríkjamanninum Bryan Barberena á UFC 286 í blönduðum bardagalistum í Lundúnum á laugardag er Gunnar nú með flesta sigra í veltivigt eftir uppgjafartök.

Gunnar hefur unnið sjö sigra með uppgjafartaki í veltivigt í UFC. Með sigrinum um helgina fór hann upp fyrir Brasilíumanninn Demian Maia og Bandaríkjamanninn Chris Lytle, sem unnu báðir sex sigra með uppgjafartaki á sínum tíma.

Alls hefur Gunnar unnið átta sigra með uppgjafartaki í UFC. Einn þeirra kom í öðrum þyngdarflokki, hentivigt.

Brasilíumaðurinn Charles Oliveira, sem keppir í léttvigt og áður í fjaðurvigt, á langflesta sigra eftir uppgjafartök í sögu UFC, eða 16 talsins.

Áðurnefndur Maia er í 2. til 3. sæti ásamt Bandaríkjamanninum Jim Miller með alls 11 sigra eftir uppgjafartök.

Gunnar er í 7. til 8. sæti ásamt Bandaríkjamanninum Frank Mir með sína átta sigra eftir uppgjafartök.

mbl.is