Ekkert verður af titilbardaga Fury og Usyk

Tyson Fury (til hægri).
Tyson Fury (til hægri). AFP

Ekkert verður af boxbardaga Bretans Tyson Fury og Úkraínumannsins Oleksandr Usyk eftir að teymi þeirra komust ekki að samkomulagi í samningaviðræðum um fyrirkomulag titilbardagans.

Áætlað var að bardaginn, sem skera átti úr um hvor þeirra teldist heimsmeistari í þungavigt óumdeilt, færi fram á Wembley-leikvanginum í næsta mánuði.

Hinn ósigraði Fury er núverandi handhafi WBC-beltisins á meðan Usyk er handhafi WBA, IBF og WBO-beltanna og hefur auk þess unnið gull í þyngdarflokknum á Ólympíuleikum, heimsmeistaramóti og Evrópumeistaramóti.

Í alþjóðlegu boxhreyfingunni kom til klofningur í kringum aldamótin og eru því nokkur sambönd nú um hituna. Því hefur ekki verið eiginlegur heimsmeistari í þungavigt óumdeilt síðan Lennox Lewis hafði betur gegn Evander Holyfield árið 1999.

Usyk vildi setja ákvæði í samninginn um bardagann við Fury um að þeir myndu berjast fljótt aftur með það fyrir augum að sá sem tapaði fengi annað tækifæri til þess að freista þess að geta kallast heimsmeistari óumdeilt.

Það vildi Fury ekki samþykkja og verður því ekki af bardaganum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert