Eins og við getum lesið hvor annan

Hafþór Andri Sigrúnarson eftir að SA tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í …
Hafþór Andri Sigrúnarson eftir að SA tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkjandi Íslandsmeistarar SA lögðu SR, 5:2, í öðrum leik úrslitaeinvígis Íslandsmóts karla í íshokkí í Skautahöllinni í Laugardal í kvöld. Með sigrinum jafnaði SA metin í einvíginu í 1:1. 

Hafþór Andri Sigrúnarson, leikmaður SA, skoraði eitt mark í leiknum og átti þar að auki stóran þátt í öðru. Hann var eðlilega nokkuð sáttur eftir sigur kvöldsins en staðan eftir fyrstu tvo leikhlutana var 2:2. Þá tók SA öll völd á vellinum og vann að lokum þriggja marka sigur.

„Við sýndum loksins hvað við getum í þriðja leikhluta. Við erum betri en við höfum verið.“

SA hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn síðustu fjögur ár og vann deildarkeppnina í ár sannfærandi. Liðið tapaði þó óvænt fyrsta leik úrslitaeinvígisins á Akureyri en svaraði fyrir það í kvöld.

Gömul saga og ný

„Við eigum meira inni. Við vitum alveg að þeir geta spilað hokkí og þeir eru grimmir en við þurfum bara að fara að sýna meira.“

Í fyrsta leiknum skoraði SR þrjú mörk manni fleiri, þegar SA var með mann í tveggja mínútna refsingu. Á ensku kallast þessir kaflar „power-play“, en þekkt er að lið nýti sér það til hins ýtrasta. Í kvöld var hins vegar sagan önnur en SA vann þá hluta sem liðið var manni færri 1:0, þ.e. liðið skoraði mark manni færri en SR náði aldrei að skora manni fleiri.

„Við breyttum svo sem engu. Við vitum að þeir eru góðir í power-play en við vitum líka að við getum spilað betur einum færri.“

Það er gömul saga og ný að þeir Hafþór, Jóhann Már Leifsson og Andri Már Mikaelsson ná einstaklega vel saman innan vallar en í kvöld komu þeir allir að mörkum. Í fimmta marki SA vann Hafþór pökkinn, gaf á Andra, sem framlengdi á Jóhann sem skoraði. Þeir félagar hafa spilað lengi saman með SA og landsliðinu og virðast þekkja hvor annan út og inn.

Næsti leikur á sunnudaginn

„Við erum búnir að spila svolítið lengi saman núna,“ sagði Hafþór og hló.

„Svo erum við saman á æfingum mörgum sinnum í viku og það er svolítið eins og við getum bara lesið hvor annan. Það hjálpar okkur aðeins.“

Næsti leikur einvígisins fer fram á Akureyri á sunnudaginn. Hafþór segir það ekki koma til greina að tapa aftur fyrir framan sína stuðningsmenn.

„Algjörlega. Við skuldum þeim það að sýna þeim eitthvað annað en á þriðjudaginn.“

Andri Már Mikaelsson og Jóhann Már Leifsson í leik SA …
Andri Már Mikaelsson og Jóhann Már Leifsson í leik SA og SR fyrir nokkrum árum. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert