Líkir lífi Schumachers við fangelsisvist

Michael Schumacher varð sjö sinnum heimsmeistari í Formúlu 1.
Michael Schumacher varð sjö sinnum heimsmeistari í Formúlu 1. AFP

Eddie Jordan, fyrrverandi framkvæmdastjóri akstursliðs Ferrari í Formúlu 1, líkti á dögunum lífi Corinnu Schumachers við fangelsisvist.

Þetta kom fram í viðtali hans við The Sun á dögunum en eiginmaður Corinnu, Michael Schumacher, lenti í alvarlegu skíðaslysi í Méribel í Frakklandi í desember 2013.

Michael var í dái í sex mánuði áður en hann vaknaði til lífsins á nýjan leik en lítið er vitað um ástand hans nú og fá aðeins nánustu vinir hans og ættingjar að heimsækja hann á sveitasetur fjölskyldunnar í Sviss.

Mjög erfitt fyrir fjölskylduna

„Það eru tæplega tíu ár frá slysinu og Corinna hefur ekki getað farið almennilega út úr húsi síðan ef svo má segja,“ sagði Jordan.

„Hún fer ekki í veislur eða hádegismat með vinkonum sínum. Þetta er nánast eins og fangelsisvist fyrir hana því hún getur ekki farið neitt, án þess að fólk vilji ræða ástand Michaels við hana.

„Ég vildi hitta Michael eftir slysið en Corinna bannaði mér það. Aðeins þeir nánustu fengu að heimsækja hann og ég virði það. Þetta hefur verið mjög erfitt fyrir fjölskylduna og sérstaklega Corinnu,“ bætti Jordan við.

Corinna Schumacher og Michael Schumacher á góðri stundu.
Corinna Schumacher og Michael Schumacher á góðri stundu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert