Þetta voru tvö heppnismörk

Hörður Björgvin, lengst til hægri, svekktur eftir mark hjá Bosníu …
Hörður Björgvin, lengst til hægri, svekktur eftir mark hjá Bosníu í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Þeir fengu þrjú færi og voru heppnir með fyrstu tvö mörkin,“ sagði Hörður Björgvin Magnússon, varnarmaður íslenska landsliðsins í fótbolta, í samtali við mbl.is í kvöld.

Ísland mátti þola 0:3-tap fyrir Bosníu á útivelli í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2024. „Þetta var ekki okkar leikur í dag og svona er þetta. Við verðum að læra af þessum leik og stíga upp,“ sagði hann.

Hörður viðurkennir að það sé erfitt að byrja nýja undankeppni á stóru tapi. „Þetta er ekki það sem við vildum og vorum að bíða eftir. Við ætluðum okkur meira, en svo breyttist leikurinn þegar við fengum þessi mörk á okkur. Við reyndum að sækja og fengum einhver færi en vorum óheppnir að nýta þau ekki betur.“

Íslensku varnarmennirnir réðu stundum illa við sóknarmenn Bosníu, eins og lokatölurnar gefa til kynna. „Við vorum of langt frá leikmönnum. Þetta voru tvö heppnismörk, en við vorum ekki nógu góðir í vörninni og pressuðum þá ekki nógu vel,“ sagði Hörður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert