SA skrefi nær titlinum

Hafþór Andri Sigrúnarson sækir að marki SA í leiknum.
Hafþór Andri Sigrúnarson sækir að marki SA í leiknum. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Þriðji leikurinn í úrslitakeppni karla í íshokkí var leikinn í Skautahöllinni á Akureyri í dag. Þar spiluðu SA og SR en staðan í einvígi liðanna var 1:1 eftir að hvort lið hafði unnið leik á útivelli. Leikirnir höfðu farið 7:3 fyrir SR og 5:2 fyrir SA. Báðir markaleikir og mátti búast við framhaldi á slíku.

Það var gríðarlega mikið undir og nagandi spenna á svellinu, sem og í stúkunni, þegar leikurinn hófst. Markalaust var langt fram í annan leikhluta en eftir að SA náði inn fyrsta markinu var ekki aftur snúið og Akureyringar unnu leikinn 4:1.

Staðan í einvíginu er þá orðin 2:1 fyrir SA en þrjá sigra þarf til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. Næsti leikur verður á þriðjudagskvöld í Skautahöllinni í Laugardal. Þá gæti bikarinn farið á loft en SR getur tryggt sér oddaleik með sigri.

Heimamenn í SA byrjuðu leikinn töluvert betur. Þeir sóttu meira og voru hættulegri stærstan hluta fyrsta leikhluta. Inn á milli tóku SR-ingar stórhættulegar og hraðar sóknir sem hefðu vel getað skilað mörkum. Ekkert var skorað fyrstu 20 mínúturnar og staðan því 0:0 þegar annar leikhlutinn hófst. Áfram tregðuðust liðin við að skora lengi vel. Þrátt fyrir að komast stöku sinnum í yfirtölu þá skilaði það liðunum engu. Það var svo eftir 35 mínútna leik sem SA nýtti sér loks að vera manni fleiri. Þá braut Hafþór Andri Sigrúnarson ísinn með laglegu marki eftir gott spil. Atli Valdimarsson í marki SR var óheppinn að verja ekki skotið en hann hafði farið á kostum í markinu fram að þessu. Heimamenn létu kné fylgja kviði og bættu við marki skömmu síðar. Þá fylgdi Birkir Einisson eftir skoti frá Ólafi Baldvin Björgvinssyni. Atli hafði varið skotið en pökkurinn féll fyrir Birki sem hamraði hann í netið, nánast af marklínunni.

Eftir þetta var bras á SR-ingum og þeir misstu menn í refsingu. Það var þó einn leikhluti eftir og ekkert í hendi hjá Akureyringum. Lið SA mætti á fullu gasi inn í þriðja leikhlutann og bætti fljótlega við þriðja markinu. Jóhann Már Leifsson sendi þá pökkinn í mark eftir góða sendingu. Í stöðunni 3:0 virtust SR-ingar loks ná áttum á ný og þeir blésu til stórsóknar um miðjan leikhlutann. Þeir fengu nokkur góð færi á þeim kafla og var í raun ótrúlegt að ekki kæmi mark.

Í staðinn þá juku heimamenn forskotið í 4:0 þegar þeir nutu þeirra forréttinda að vera tveimur fleiri. Þá má segja að leik hafi verið lokið og liðin gerðu lítið þær mínútur sem eftir voru. Axel Orongan skoraði þó fyrir SR á lokamínútunni en hann hafði sýnt flotta takta margoft í leiknum.

SA vann því sannfærandi sigur en leikurinn var jafnari en lokatölurnar gefa til kynna.

Fjórði leikurinn fer fram í Skautahöllinni í Laugardal á þriðjudagskvöldið kl. 19:45. Þá getur Íslandsmeistarabikarinn farið á loft en ef kemur til fimmta leiks þá verður hreinn úrslitaleikur á fimmtudaginn kl. 19:30 í Skautahöllinni á Akureyri.

Mörk/stoðsendingar: 

SA: Andri Már Mikaelsson 0/3, Jóhann Már Leifsson 2/0, Hafþór Andri Sigrúnarson 1/1, Gunnar Aðalgeir Arason 0/2, Uni Sigurðarson 1/0, Ólafur Baldvin Björgvinsson 0/1. 

SR: Axel Orongan 1/0, Kári Arnarsson 0/1.  

Refsingar: 

SA: 8 mín 

SR: 14 mín 

SA 4:1 SR opna loka
60. mín. SR Textalýsing Axel er að sýna takta og þvílíka snerpu. Heimamenn ná að verjast.
mbl.is