Snorri vann tvöfalt – Andrea og Gígja hlutskarpastar

Albert Jónsson, Dagur Benediktsson og Snorri Einarsson höfnuðu í efstu …
Albert Jónsson, Dagur Benediktsson og Snorri Einarsson höfnuðu í efstu þremur sætunum í bæði 10 km og 15 km skíðagöngu í Bláfjöllum um helgina. Ljósmynd/SKÍ

Íslandsmótið í skíðagöngu fór fram í Bláfjöllum um helgina. Snorri Eyþór Einarsson, fremsti skíðagöngumaður landsins, bar sigur úr býtum í bæði 10 kílómetra og 15 kílómetra göngu karla.

Snorri tilkynnti á dögunum að hann væri hættur keppni á alþjóðlegum mótum en hefur þó ekki alfarið lagt gönguskíðin á hilluna.

Hann kom fyrstur í mark í 10 km göngu á laugardag á 27:03,3 mínútum og einnig fyrstur í mark í 15 km göngu í dag á tímanum 37:52,3.

Í báðum greinum varð Albert Jónsson annar og Dagur Benediktsson þriðji. Albert kom í mark á 27:55,6 mínútum í 10 km göngu og tímanum 38:36,5 í 15 km göngu.

Dagur kom í mark á 28:36,4 mínútum í 10 km göngu og tímanum 40:10,5 í 15 km göngu.

Andrea Kolbeinsdóttir kom þá fyrst í mark í 5 km göngu kvenna á laugardag á 16:45,2 mínútum. Hin norska Karin Björnlinger varð önnur á tímanum 17:12,3 og Gígja Björnsdóttir varð þriðja á 17:32,3 mínútum.

Gígja reyndist svo hlutskörpust í 10 km göngu kvenna í dag þegar hún kom í mark á tímanum 30:53,1. Andrea hafnaði þar í öðru sæti á 31:38,9 mínútum og Björnlinger varð þriðja á tímanum. 32:09,8.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert