Minnisstæð helgi

Andrea Kolbeinsdóttir stórbætti Íslandsmetið í 5.000 metra hlaupi innanhúss eftir …
Andrea Kolbeinsdóttir stórbætti Íslandsmetið í 5.000 metra hlaupi innanhúss eftir að hafa tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í 5 kílómetra skíðagöngu fyrr um daginn. Ljósmynd/Aðsend

Síðastliðin helgi var ansi viðburðarík fyrir Andreu Kolbeinsdóttur. Á laugardag varð hún Íslandsmeistari í 5 kílómetra skíðagöngu kvenna og síðar um daginn gerði Andrea sér lítið fyrir og sló 29 ára gamalt Íslandsmet Fríðu Rúnar Þórðardóttur í 5.000 metra hlaupi innanhúss á Góumóti Gaflarans í Kaplakrika.

Á sunnudeginum var hún mætt aftur upp í Bláfjöll á Íslandsmótið í skíðagöngu og hafnaði þá í öðru sæti á eftir Gígju Björnsdóttur í 10 kílómetra skíðagöngu.

„Tilfinningin er auðvitað ógeðslega góð. Ég mun lengi muna eftir þessari helgi. Þetta var ótrúlega gaman,“ segir Andrea í samtali við Morgunblaðið.

Spurð hvort þreyta hafi spilað inn í á sunnudeginum svarar hún: „Já, þreyta hafði auðvitað einhver áhrif en í 10 km göngunni var notast við frjálsa aðferð, sem er skaut, ekki hefðbundin aðferð.

Ég er nýbyrjuð að læra á skautið þannig að ég get bætt mig mjög mikið hvað tæknina varðar í því. Svo spilaði það líka inn í að Gígja er betri en ég í skauti. Ég hlakka til að bæta mig þar til þess að reyna að vinna hana næst.“

Vinna ótrúlega vel saman

Þótt íþróttagreinarnar tvær séu ólíkar vildi svo til að um sömu vegalengd var að ræða þar sem Andrea reyndist hlutskörpust. Hún telur íþróttirnar fara vel saman.

„Já, alveg klárlega. Þetta eru hvort tveggja úthaldsíþróttir sem vinna ótrúlega vel saman. Sem dæmi er Snorri Einarsson, besti skíðagöngumaðurinn á Íslandi, líka ótrúlega góður hlaupari. Hann hleypur til þess að æfa sig en svo er hann að keppa á móti bestu hlaupurunum á Íslandi og er framarlega þar líka.

Þannig að þetta virkar klárlega í báðar áttir. Það sem var svo skemmtilegt við laugardaginn er að þetta var í báðum tilfellum 5 kílómetrar. Í skíðagöngunni var lokatíminn 16 mínútur og 45 sekúndur og svo í hlaupinu hljóp ég 16 mínútur og 46 sekúndur. Það munaði sekúndu á milli, sem var frekar magnað því ég var ekki að reyna það!“ útskýrir Andrea.

Viðtalið við Andreu má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »