Snýr sig úr hálsliðnum þegar það sér hana

Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir á vetrarólympíuleikunum í Peking.
Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir á vetrarólympíuleikunum í Peking. AFP

„Það er alltaf gaman að fá verðlaun fyrir góðan árangur,“ sagði skíðakonan Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir í samtali við mbl.is.

Hólmfríður, sem er 25 ára gömul, hafnaði í þriðja sæti í bruni á alþjóðlegu FIS-stigamóti í Petzen í Austurríki á dögunum en Hólmfríður var einungis 1,75 sekúndum á eftir Ilku Stuhec frá Slóveníu sem er í öðru sæti heimslistans í greininni.

„Þetta var mjög sterkt sem gerir þetta ennþá skemmtilegra ef svo má segja. Heimsmeistarinn í greininni keppti á mótinu og margir keppendur eru með fastan keppnisrétt í heimsbikarnum.

Það var virkilega gaman að mæta þessum stelpum og að deila palli með svona stjörnum eins og til dæmis Ilku var mjög góð tilfinning.

Hún er algjör stjarna í Slóveníu og fólk bókstaflega snýr sig úr hálslið þegar að það sér hana út á götu sem dæmi,“ sagði Hólmfríður Dóra í léttum tón.

Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir í Peking.
Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir í Peking. Ljósmynd/Erla Ásgeirsdóttir

Búið að vera erfitt

Þetta var svo gott sem fyrsta alvöru mót Hólmfríðar á tímabilinu en hún meiddist í október og hafa meiðslin haldið henni frá keppni stærstan hluta tímabilsins.

„Það stóð til að ég myndi keppa á bæði Evrópubikar- og heimsbikarmótum á tímabilinu en meiðslin settu allt úr skorðum ef svo má segja. Þetta er búið að vera frekar erfitt, satt best að segja, því ég fer inn í hvert einasta keppnistímabil með stór plön.

Ég var líka lengur frá keppni en í fyrstu var talið og ég náði til að mynda ekki löngum undirbúningi fyrir mótið í Petzen. Árangurinn fór því algjörlega fram úr mínum væntingum og þjálfarans enda er ég búinn að vera rúmliggjandi mest allt tímabilið á meðan stelpurnar sem ég var að keppa á móti eru búnar að vera keppa í heimsbikarnum.“

Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir hafnaði í 38. sæti í svigi á …
Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir hafnaði í 38. sæti í svigi á vetrarólympíuleikunum í Peking. AFP

Áhersla á hraðagreinar

Hólmfríður var á meðal keppenda á vetrarólympíuleikunum í Peking árið 2022 og ætlar sér stóra hluti í framtíðinni.

„Ég ætla mér klárlega að leggja áherslu á þessar hraðagreinar í komandi framtíð og það er auðvitað mjög langt síðan að Ísland átti keppanda með keppnisrétt í hraðagreinunum í heimsbikar.

Ég er á leið á mót núna í Val d'Isére í Frakklandi í apríl þar sem ég ætla að keppa í svigi, stórsvigi og risasvigi. Ég kem svo heim til Íslands í maí en ég er strax byrjuð að undirbúa næsta keppnistímabil ef svo má segja,“ sagði Hólmfríður Dóra í samtali við mbl.is.

Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir keppti í svigi, stórsvigi og risasvigi á …
Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir keppti í svigi, stórsvigi og risasvigi á vetrarólympíuleikunum. Ljósmynd/Erla Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert