Wimbledon fellir keppnisbann úr gildi

Rússinn Daniil Medvevev getur tekið þátt á Wimbledon-mótinu í ár …
Rússinn Daniil Medvevev getur tekið þátt á Wimbledon-mótinu í ár eftir að hafa verið meinuð þátttaka á síðasta ári. AFP/Chandan Khanna

Forsvarsmenn Wimbledon-mótsins í tennis hafa tekið ákvörðun um að aflétta keppnisbanni tennisleikara frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi og leyfa þeim að taka þátt á mótinu í sumar.

Á síðasta ári var Rússum og Hvít-Rússum meinuð þátttaka á Wimbledon-mótinu vegna innrásar Rússland í Úkraínu. Sem refsingu afréðu samtök atvinnutennisleikara, ATP hjá körlum og WTA hjá konum, þá að láta árangur á mótinu ekki gilda til stigasöfnunar á heimslista.

Bæði ATP og WTA hugðust halda þeirri refsingu við og þrýstu þannig á Tennis- og croquet félag Englands, AELTC, og Tennissamband Bretlandseyja að aflétta keppnisbanninu.

Sú ákvörðun hefur nú verið tekin en þurfa rússneskir og hvít-rússneskir að skrifa undir formlega yfirlýsingu um hlutleysi til þess að geta tekið þátt á Wimbledon-mótinu.

Í yfirlýsingu AELTC segir að ákvörðunin hafi ekki reynst félaginu léttvæg, það fordæmi ólögmæta innrás Rússlands í Úkraínu og styðji enn heilshugar við bakið á íbúa Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert