„Var með blóðbragð í munninum“

Eygló á tánum með stöngina, ekki millimetri gefinn eftir.
Eygló á tánum með stöngina, ekki millimetri gefinn eftir. Ljósmynd/Isaac J. Morillas

„Ég var í A-hópnum í þyngdarflokknum mínum sem var sterkasti flokkurinn og það var alveg magnað fyrir mig. Ég var að keppa við stelpur sem ég ólst upp við að horfa á og hafa verið mér algjörar fyrirmyndir.“ Þetta segir Eygló Fanndal Sturludóttir sem í dag hafnaði í 6. sæti af 22 keppendum í -71 kg flokki á Evrópumeistaramótinu í ólympískum lyftingum í Yerevan í Armeníu en hún er annar tveggja íslenskra keppenda á mótinu.

„Dagurinn í dag var bara mjög góður og gekk í heildina vel, vigtun var hálffjögur [síðdegis] og við hófum svo keppni hálfsex,“ heldur Eygló áfram. Hún opnaði með 93 kg í snörun og fór létt með, færði sig þá í 96 sem ekki var síðra en þriðja og síðasta lyftan, 99 kg, rataði ekki upp að þessu sinni.

„Sem er mjög súrt, ég hefði viljað ná þeirri lyftu, ég er nógu sterk, bara hitti ekki á í þessari lyftu,“ segir Eygló sem á best 101 kg í snöruninni. Þar með lauk hún keppni í áttunda sæti í snörun.

Íslandsmet í lokalyftunni

Hún lét engan bilbug á sér finna þrátt fyrir svekkjandi lokalyftu og opnaði með 116 kg í jafnhendingu. „Ég var vel stemmd en yfirskaut hana aðeins og gríp hana í hælana og þurfti þá að berjast aðeins við að ná jafnvæginu til að ná að klára,“ útskýrir Eygló lyftu sem skilaði sér gild í mark.

Þá þyngdi hún í 119 og gekk mjög vel með þá lyftu. „Það var besta lyftan af þessum þremur, var flott og leit vel út.“ Lokalyftan var svo 121 kg sem var Íslandsmet og auk þess besti árangur Eyglóar persónulega. „Það var svolítil barátta, ég náði clean-inu [fyrri hluta hreyfingarinnar] en þurfti að hafa svolítið fyrir að standa upp. Svo greip ég stöngina ekki alveg nógu vel í jeark-inu [síðari hluta lyftunnar] og byrjaði að snúast með stöngina. Það var mikil barátta og ég var með blóðbragð í munninum eftir þessa lyftu. En ég var svolítið pirruð eftir snörunina og ætlaði ekki að missa þessa,“ segir Eygló enda tókst henni það ætlunarverk og lauk þar með keppni.

„Það var svolítil barátta, ég náði clean-inu en þurfti að …
„Það var svolítil barátta, ég náði clean-inu en þurfti að hafa svolítið fyrir að standa upp. Svo greip ég stöngina ekki alveg nógu vel í jeark-inu og byrjaði að snúast með stöngina. Ljósmynd/Isaac J. Morillas

Sjötta sæti hlaut hún í jafnhendingu, áttunda í snörun sem fyrr segir og sjötta í samanlögðu en samanlögð þyngd Eyglóar á þessu móti var 217 kg. Með henni í -71 kg flokki í dag voru heimsþekktar valkyrjur á borð við Giuliu Miserendino frá Ítalíu og hina bresku Söruh Davis en þetta mót telur til stiga fyrir Ólympíuleikana í París á næsta ári. Hin rúmenska Loredana Elena Toma sigraði nokkuð örugglega í -71 kg með 240 kg í samanlögðu.

Stuðningur landanna ómetanlegur

„Það var mjög gaman að hafa þjálfarann minn hérna [Inga Gunnar Ólafsson] og líka Helgu Hlín og Unnar manninn hennar,“ segir Eygló en Helga Hlín Hákonardóttir er um þessar mundir formaður Lyftingasambands Íslands og Unnar Helgason maður hennar kunnur þjálfari afreksfólks. „Það var æðislegt að hafa þau hérna að hvetja mig á kantinum.“

Eygló er sátt við sinn dag í dag og fram …
Eygló er sátt við sinn dag í dag og fram undan er tóm keyrsla, þar af mót sem veita stig til þátttöku á Ólympíuleikunum í París á næsta ári. Ljósmynd/Isaac J. Morillas

Fjöldi móta er fram undan hjá Eygló sem er ákveðin í að bæta sig í snöruninni upp á að byggja vel undir góða heildarþyngd í samanlögðu, þar kveður hún öllu skipta að byrja vel. Mörg mótanna fram undan telja til stiga á Ólympíuleikana svo til mikils er að vinna fyrir þessa afrekskonu sem verið hefur áberandi í hópi öflugra íslenskra keppniskvenna í ólympískum lyftingum síðustu misseri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert