Snæfríður sló metið aftur – átta verðlaun og aldursflokkamet

Snæfríður Sól Jórunnardóttir með verðlaunapeningana sína tvo í dag.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir með verðlaunapeningana sína tvo í dag. Ljósmynd/Sundsamband Íslands

Snæfríður Sól Jórunnardóttir bætti eigið Íslandsmet í 100 metra skriðsundi í annað sinn í dag þegar hún synti fyrsta sprett í 4x100 metra skriðsundi íslensku boðsundssveitarinnar á 54,97 sekúndum á Smáþjóðaleikunum á Möltu.

Fyrr í dag hafði Snæfríður Sól slegið eigið met í greininni er hún synti á 55,06 sekúndum í 100 metra skriðsundi og krækti þannig í silfurverðlaun.

Í 4x100 metra boðsundinu í skriðsundi tryggði íslenska sveitin sér sigur í greininni. Sveitina skipuðu ásamt Snæfríði Sól þær Jóhanna Elín Guðmundsdóttir, Vala Dís Cicero og Kristín Helga Hákonardóttir.

Þau Eva Margrét Falsdóttir og Birnir Freyr Hálfdánarson sigruði bæði í 200m fjórsundi í dag.  Eva Margrét bætti tímann sinn með því að synda á 2:21,74 mínútum og Birnir synti á 2:07,08 mínútum.

Veigar Hrafn Sigþórsson synti einnig 200m fjórsund og bætti tíma sinn í greininni, synti á tímanum 2:10,61.

Karlasveitin í 4x100m skriðsundi tryggði sér silfurverðlaun í greininni þegar hún synti á 3:30,96 mínútum. Sveitin var skipuð þeim Símoni Elíasi Statkevicius, Guðmundi Leó Rafnssyni, Ými Sölvasyni og Birni Frey.

Ylfa Lind Kristmannsdóttir varð önnur í 200m baksundi og bætti tíma sinn um rúmar 3 sekúndur, synti á 2:29,16 mínútum.

Kristín Helga varð í þriðja sæti í 200m flugsundi á tímanum 2:25,72 og Aron Þór Jónsson varð fimmti í 200m flugsundi á tímanum 2:12,55.

Freyja Birkisdóttir varð í þriðja sæti í 800m skriðsundi á tímanum 9:17,16, Katja Lilja Andriysdóttir varð í fjórða sæti í sömu grein og bætti tíma sinn er hún synti á 9:19,35 mínútu.

Þeir Bergur Fáfnir Bjarnason og Guðmundur Leó syntu 200m baksund. Guðmundur varð fjórði á 2:09,18 mínútum og Bergur varð fimmti á 2:10,06 mínútum er hann bætti tíma sinn.

Símon Elías varð sjötti í 100m skriðsundi á tímanum 51,67 og bætti þannig tímann sinn.

Hólmar Grétarsson bætti sig loks um 10 sekúndur í 800m skriðsundi og setti um leið aldursflokkamet í greininni, 8:35,15 mínútur.

Smáþjóðaleikarnir halda áfram í fyrramálið og hefst keppni klukkan átta að íslenskum tíma.

mbl.is