Gunnar og Klæmint í landsliðinu

Gunnar Vatnhamar er í færeyska landsliðinu.
Gunnar Vatnhamar er í færeyska landsliðinu. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Gunnar Vatnhamar úr Víkingi og Klæmint Olsen úr Breiðabliki eru í færeyska landsliðinu í knattspyrnu sem hefur verið valið fyrir  tvo leiki í undankeppni EM síðar í þessum mánuði.

Færeyingar mæta Tékkum 17. júní og Albönum 20. júní en leikirnir fara báðir fram í Færeyjum. Patrik Johannessen, leikmaður Breiðabliks, er fjarri góðu gamni eftir að hafa slitið krossband í hné í síðasta mánuði.

Þrír fyrrverandi leikmenn íslenskra liða eru einnig í hópnum. Sonni Ragnar Nattested, sem lék með Fylki og FH en núna með B36, Rene Shaki Joensen sem lék með Grindavík en nú með KÍ Klaksvík og Brandur Olsen, sem lék með FH en nú með Fredrikstad í Noregi.

Færeyingar hafa leikið einn leik í undankeppninni en þeir gerðu jafntefli við Moldóvu á útivelli, 1:1, í mars. Pólland er fimmta liðið í þessum riðli.

Sextán af 24 leikmönnum færeyska liðsins spila í færeysku úrvalsdeildinni en hinir á Íslandi, í Noregi, Danmörku, Írlandi og Belgíu.

mbl.is