„Magnús er dáinn!“

„Það var grasrót þarna, sem ég sá alltaf þegar að við vorum að keyra heim, og hún leit alltaf út eins og hinn fullkomni stökkpallur,“ sagði Magnús Bjarki Þórlindsson, meðlimur í BMX Brós hjólahópnum, í Dagmálum.

Sex metra fall

Magnús Bjarki, sem er 28 ára gamall, varði miklum tíma á Eskifirði á sínum yngri árum þar sem faðir hans og stjúpmóðir bjuggu.

„Ég var 9 ára gamall þarna og einn daginn negli ég niður brekkuna og stekk á grashólnum,“ sagði Magnús Bjarki.

„Ég var hins vegar aldrei búinn að kanna hvað var hinum megin við grasrótina og ég enda ofan í Bleiksánni. Þetta var sex metra fall og ég enda með ör á enninu, hjálmurinn klofnar í tvennt og hjólið líka.

Ég man þetta svo vel því það leið yfir mig af hræðslu í loftinu. Lögreglan er í einhverri eftirlitsferð þarna, sér mig stökkva og það bjargaði mér.

Sex ára bróðir minn horfir á þetta allt saman, hjólar svo heim til pabba og segir við hann: „Magnús er dáinn!“ sagði Magnús Bjarki meðal annars.

Viðtalið við Benedikt og Magnús Bjarka í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

mbl.is