Gudaf Tsegay frá Eþíópíu stórbætti heimsmetið í 5.000 metra hlaupi kvenna er hún hljóp vegalengdina á 14:00,21 mínútu á Demantamóti í frjálsum íþróttum í Oregon í Bandaríkjunum í kvöld.
Bætti hún met Faith Kipyegon frá Keníu um rétt tæplega fimm sekúndur, en Kipyegon setti heimsmetið í París fyrr á þessu ári er hún hljóp á 14:05,20 mínútum. Tsegay bætti eigin besta árangur um 12 sekúndur með hlaupinu.
Þá bætti Svíinn Mondo Duplantis eigið heimsmet í stangarstökki er hann stökk 6,23 metra. Bætti hann metið um einn sentímetra, líkt og í önnur skipti sem hann hefur bætt metið. Hann hefur nú bætt heimsmetið sjö sinnum.