Rafael Nadal, einn besti tennisleikari sögunnar, á sér þann draum að verða forseti spænska knattspyrnustórveldisins Real Madrid.
Nadal, sem er 37 ára gamall, skýrði frá þessu í viðtali við Movistar Plus. „Þetta er ekki gamall draumur, en akkúrat núna myndi ég svara þessu játandi, ég myndi elska það að taka við starfi forseta Real Madrid," sagði Nadal.
Hinn 76 ára gamli Florentino Perez hefur verið forseti félagsins frá árinu 2009 og áður frá 2000 til 2006, en valdaskeið hans á að renna út sumarið 2025.
Nadal er dyggur stuðningsmaður Real Madrid og er tíður gestur á heimaleikjum liðsins. Meiðsli hafa sett svip sinn á feril hans síðasta árið en hann vann síðast stórmót á árinu 2022.