Crossfit-konan Sara Sigmundsdóttir verður ekki með á Rogue Invitational-mótinu í næsta mánuði vegna mistaka í undankeppninni.
Sara var á góðri leið með að tryggja sér sæti á mótinu, sem er eitt það stærsta vestanhafs á ári hverju, þegar hún fékk þær fregnir að lyftingastöngin sem hún notaðist við í undankeppninni hafi ekki verið lögleg.
„Þetta voru heimskuleg mistök og engum öðrum en mér sjálfri að kenna. Þetta var súr og erfið reynsla, þótt margt hafi verið jákvætt líka. Mér leið eins og íþróttamanni aftur,“ sagði Sara m.a. á YouTube-síðu sinni.
Sara var ekki með á heimsleikunum fyrr á árinu og hefur því misst af tveimur af stærstu mótum ársins á skömmum tíma.