Bikarinn fór yfir brúna

Verðlaunahafar í lokaumferðinni: Stefán Orlandi sigurvegari, Ingólfur Snorrason annar og …
Verðlaunahafar í lokaumferðinni: Stefán Orlandi sigurvegari, Ingólfur Snorrason annar og Ingvar Samúelsson þriðji. Ljósmynd/B&B Kristinsson

Þriðja og síðasta umferð Íslandsmótsins í kappakstri á Superbike fór fram á dögunum við góðar aðstæður á kappakstursbraut Kvartmíluklúbbsins, þar sem eknar voru tvær lotur tíu hringja.

Það var búið að ganga á ýmsu fyrir lokaumferðina, sterkir keppendur í vandræðum vegna óhappa og tæknilegra örðugleika, ríkjandi Íslandsmeistari datt út, og yfirburðir Selfyssingsins Stefáns Orlandi sem setti fjölda nýrra brautarmeta. 

Fyrir lokaumferðina var Stefán efstur að stigum en skammt á eftir honum komu þeir Jóhann Leví Jóhannsson og Ingólfur Snorrason, sem báðir hafa verið að bæta sig grimmt á tímabilinu.

Spenna strax í tímatökum og í fyrstu lotu

Það má segja að keppnin hafi farið af stað með hvelli strax í tímatökunum, því Ingólfur setti hraðasta hring og var þar með á ráspól, Stefán varð annar og Jóhann Leví þriðji. 

Ekki minnkaði spennan er keppni hófst, Stefán náði góðu starti og leiddi keppnina með Ingólf og Jóhann Leví fast á hæla sér. 

Allir þrír keyrðu mjög hratt strax frá upphafi, Jóhann Leví keyrði meðal annars mjög nærri brautarmeti á þriðja hring en lenti í óhappi með hjólið og datt út.

Stefán leiðir fyrri lotuna með Ingólf á eftir sér.
Stefán leiðir fyrri lotuna með Ingólf á eftir sér. Ljósmynd/B&B Kristinsson

Ingólfur náði á einum tímapunkti fram úr Stefáni en hann svaraði þó fljótt fyrir sig og hélt forystu allt til enda, þó með Ingólf þétt á eftir sér. 

Stefán setti um leið enn á ný nýtt brautarmet er hann ók á tímanum 1:23,114 mínútum og náði einnig að keyra fimm hringi af tíu undir 1:24 mínútum.

Þriðji í lotunni varð síðan Ingvar Samúelsson, Bjartur Snær Róbertsson varð fjórði og fimmti varð Sveinn Logi Guðmannsson.

Önnur lotan öll Stefáns

Eftir fyrstu lotu var Stefán búinn að gulltryggja Íslandsmeistaratitilinn en baráttan um annað sætið var þó enn milli Ingólfs og Jóhanns Leví. 

Stefán ók lotuna af miklu öryggi og landaði enn einum sigrinum, annar kom síðan Ingólfur og Jóhann Leví skilaði sér þriðji í mark en Jóhann ók seinni lotuna á varakeppnishjóli. 

Þetta er í fyrsta sinn sem Stefán krækir í Íslandsmeistaratitil í íþróttinni. Hann sýndi frábæra takta á brautinni á tímabilinu og setti fjölda meta.

Úrslitin í þriðju umferðinni og lokaumferðinni voru þannig að Stefan Orlandi sigraði, Ingólfur Snorrason kom annar og Ingvar Samúelsson varð þriðji. 

Fjórði var síðan Bjartur Snær Róbertsson, fimmti var Sveinn Logi Guðmannsson og sjötti varð Jóhann Leví Jóhannsson.

Stefán hampaði þannig Íslandsmeistaratitlinum, Ingólfur varð annar og Jóhann Leví þriðji.

Hraðinn að aukast og gæðin með

Það er orðið deginum ljósara að æfingarnar undanfarin tvö ár eru að skila sér mjög sterkt inn í keppnishóp mótorhjólakappaksturs. Brautarmetið hefur farið úr 1:24,866 í byrjun tímabils í fyrra niður í 1;23,114. 

Það má því reikna með gríðarsterku tímabili á næsta ári þar sem Stefán mun þó ekki sleppa hendinni af titlinum svo auðveldlega. 

Ingólfur og Jóhann Leví eru að bæta sig hratt, Jóhann Leví ók hraðast á tímanum 1:23,414 og Ingólfur ók þrjá hringi undir 1:24 í fyrri keppnislotunni. 

Ekki má síðan gleyma þeim Ármanni Guðmundssyni, Árna Þór Jónassyni og Sigmari Lárussyni, sem voru fjarri góðu gamni í baráttunni í þetta sinn.  

Íþróttin er ung hérna á Íslandi og í uppbyggingu, fjöldi í unglingaflokki er að aukast og það er mjög einkennandi hve samvinna er sterk innan hópsins. Á meðan keppnin er hörð þá eru allir þátttakendur að vinna saman að betri heildarárangri. 

Fram undan er haustið og æfingum fer að fækka en einhverjir munu þó stefna á frekari æfingar á brautum erlendis í vetur.

mbl.is
Loka