Heimsmeistari lést í bílslysi

Fyrirliðinn Francois Pienaar og Hannes Strydom fagna heimsmeistaratitlinum á heimavelli …
Fyrirliðinn Francois Pienaar og Hannes Strydom fagna heimsmeistaratitlinum á heimavelli árið 1995. AFP/Philip Littleton

Hannes Strydom, heimsmeistari í rúgbí með landsliði Suður-Afríku, er látinn, 58 ára að aldri. Lést Strydom í bílslysi í grennd við bæinn eMalahlaleni í heimalandinu í gær.

Fyrrverandi liðsfélagi hans og náinn vinur, Kobus Wiese, greindi frá því í samtali við suðurafríska miðla að smáatriði í tengslum við slysið væru enn óljós en að þó væri ljóst að bifreið Strydom hafi skollið saman við smárútu og hann í kjölfarið látist af sárum sínum.

Strydom var hluti af suðurafríska landsliðinu sem stóð uppi sem heimsmeistari á HM 1995 á heimavelli, aðeins ári eftir að aðskilnaðarstefnan var lögð af í Suður-Afríku.

Lék hann alls 21 landsleik fyrir þjóð sína á árunum 1993 til 1997.

mbl.is