Myndskeið: Fluttur á sjúkrahús eftir bifhjólaslys

Að sögn keppnisstjóra þá var maðurinn með meðvitund þegar hann …
Að sögn keppnisstjóra þá var maðurinn með meðvitund þegar hann var fluttur á sjúkrahús. Skjáskot/Kappakstur

Bifhjólakappi var fluttur á sjúkrahús vegna slyss í Íslandsmeistaramóti í kappakstri mótorhjóla fyrr í dag.

Kristín Rós Hlynsdóttir keppnisstjóri segir í samtali við mbl.is að maðurinn hafi verið með meðvitund þegar hann var fluttur á sjúkrahús. Er hann enn upp á sjúkrahúsi í nánari rannsókn.

Mótið var haldið í Hafnarfirði á Kvartmílubrautinni og eins og sjá má í myndskeiði hér að neðan þá fór maðurinn út af brautinni og datt af hjólinu á mikilli ferð. 

„Árekstur, árekstur, árekstur“

Kristín segir að sjúkrabíll hafi verið fljótlega kominn á vettvang og segir hún að vel hafi verið brugðist við slysinu.

„Þetta var fyrsta keppnin af tveimur, sem eru 10 hringir, og það voru búnir þrír hringir þegar slysið verður,“ segir Kristín.

Eins og heyra má í upptökunni í myndskeiðinu þá bregður lýsendum keppninnar verulega þegar slysið á sér stað.

„Árekstur, árekstur, árekstur,“ segir einn maður á upptökunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert