„Ég mæli ekki með þessu“

Kristín Þórhallsdóttir á Reykjavíkurleikunum í janúar í fyrra þar sem …
Kristín Þórhallsdóttir á Reykjavíkurleikunum í janúar í fyrra þar sem hún stóð uppi með 565 kg í samanlögðu. Fór hún með sigur af hólmi þar og var auk þess með hæsta „tótalið“ í kvenna­flokki og mesta stiga­fjölda óháð kyni. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta er búið að vera heilmikil rússíbanaferð,“ segir Kristín Þórhallsdóttir, kraftlyftingakonan öfluga úr Borgarfirði, í samtali við mbl.is, stödd á heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum í Druskinkai í Litáen.

Kristín hafnaði þar í fjórða sæti í -84 kg flokki þar sem þær voru tíu sem öttu kappi. Hlaut hún bronsverðlaun í hnébeygju og setti auk þess nokkur heimsmet í öldungaflokkinum M1, sem er 40 til 49 ára flokkur, en Kristín er nýorðin fertug og því gjaldgengur keppandi í Masters-flokkunum svokölluðu.

Dýralæknirinn hamrammi, sem mokað hefur til sín verðlaunapeningunum undanfarin misseri, gekk því miður ekki á öllum strokkum þetta mótið þar sem Kristín glímir við meiðsli – ekki til komin á æfingu heldur einfaldlega í vinnunni en hestur hljóp á hana og gaf henni rækilegt stuð á öxlina með þeim afleiðingum að hún tognaði í baki og er með laskaða tvíhöfðasin í upphandlegg.

Kristín á bronspallinum í Litáen í dag. Hún mætti meidd …
Kristín á bronspallinum í Litáen í dag. Hún mætti meidd og fór meidd eins og hún segir frá, en hestur hljóp á dýralækninn borgfirska og gerði henni nokkra skráveifu. Ljósmynd/Hinrik Pálsson/Kraft.is

Gengið í þremur úlpum

„Ég þurfti líka að losa mig við tvö kíló í morgun til að ná þyngd svo þetta var mjög dramatískur morgun líka,“ segir Kristín af sinni alkunnu glettni, enda hefur hún jafnan átt auðvelt með að sjá spaugilegu hliðarnar á lífinu.

Þetta hafðist með stífum göngutúr í þremur úlpum í 22 stiga hita og heitu baði, aðferðum sem valda töluverðri hættu á tognun eins og Kristín raunar fékk að reyna á pallinum. „Ég mæli ekki með þessu en maður þarf stundum að grípa til þessara ráða þegar maður er í þessari stöðu. Við svona mikla vatnslosun fer svo mikið af söltum og vökva úr vöðvunum að hættan á tognun eykst,“ segir hún.

Kristín í „deddinu“ þar sem babb kom í bátinn og …
Kristín í „deddinu“ þar sem babb kom í bátinn og hún tognaði með 227,5 kg á stönginni. Lokatalan þar varð því 215 og missti Kristín fyrir vikið af farmiða á Heimsleikana. Að vonum er hún svekkt en leið vel á mótinu í dag að öðru leyti og kveðst þurfa að finna jafnvægi milli stærstu þátta lífs síns enda frami hennar verið skjótur í keppnismennskunni. Ljósmynd/Hinrik Pálsson/Kraft.is

Þyngdin náðist og Kristínu leið að eigin sögn vel á keppnispallinum er á hólminn var komið. „Ég náði tveimur heimsmetum í Master-1-flokki í hnébeygju og einnig heimsmeti í samanlögðu,“ segir Kristín sem lyfti 545 kílógrömmum í samanlagðri þyngd í dag. En hér er það opni flokkurinn sem er til umræðu. Keppendur mega alltaf keppa í honum þrátt fyrir að vera komnir í öldungaflokkana.

Allt gilt í beygjunni

„Ég tognaði aftan í læri í síðustu réttstöðulyftunni. Hefði hún farið upp hefði ég tryggt mér farseðil á Heimsleikana svo það var svekkelsið í þessu,“ segir Kristín og játar að tognunin tengist að öllum líkindum þeirri miklu vatnslosun sem hún þurfti að takast á hendur fyrir vigtun í morgun.

Hún fékk allar lyftur sínar gildar í hnébeygju, endaði þar í 217,5 kg og nældi í bronsið. „Ég þurfti svo að taka léttari bekk en ég hef vanalega tekið vegna meiðslanna, en hann gekk ágætlega,“ segir Kristín sem lyfti 112,5 kg í bekkpressu og munaði mjög litlu að 120 kg færu upp í þriðju tilraun en besti árangur hennar í greininni eru 125 kg.

Lokatalan í réttstöðunni varð 215 en Kristín tognaði er hún reyndi við 227,5 kg þar. „En það hefði farið upp,“ segir hún ákveðin.

Hið gullna jafnvægi

„Ég hafði gaman af að keppa, árangurinn í dag var ekkert spes, langt frá mínu besta í tótali [samanlögðu]. Ég er búin að vera að kljást við mikil meiðsli og það er orðið erfiðara að finna jafnvægið milli vinnu, heimilislífs og æfinga þegar maður er á þessu „leveli“ í kraftlyftingunum,“ játar Kristín – lái henni hver sem vill.

Aðspurð kveðst hún nú ætla að taka sér tíma til að íhuga framhaldið. Ekki að hún ætli sér brotthvarf frá stálinu, íslenskir kraftlyftingaunnendur þurfa ekki að óttast það enn sem komið er.

„Nú kom ég meidd á þetta mót og fer meidd af því. Ég elska kraftlyftingar og maður er ekki tilbúinn að gefast upp. Ég þarf hins vegar að finna betra jafnvægi, það tekur mikið úr manni að æfa svona mikið og láta það ganga upp með öllu hinu,“ segir borgfirska valkyrjan Kristín Þórhallsdóttir að lokum, eftir að hafa lagt allt í sölurnar í Litáen í dag, sett þrjú heimsmet og staðið á verðlaunapalli í sínum þyngdarflokki í opnum flokki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert