„Það er engin framtíð á Íslandi, því miður“

Kristinn Jónsson varð Íslandsmeistari um helgina.
Kristinn Jónsson varð Íslandsmeistari um helgina. Ljósmynd/Anton Gunnarsson

„Það veltur svolítið allt á því hvort ég komist í lið úti, því framtíðin er þar, það er engin framtíð hérna heima á Íslandi því miður, ekki ennþá,“ segir Kristinn Jónsson, Íslandsmeistari karla í ólympískum fjallahjólreiðum, í samtali við mbl.is, spurður hvað framtíð hans beri í skauti sér.

Íslandsmeistarinn varði titil sinn á laugardaginn, en hann vann fjallhjólreiðakeppnina einnig í fyrra. Fyrir það hafði Ingvar Ómarsson hjá Breiðabliki verið Íslandsmeistari í níu ár í röð en hann lenti í öðru sæti í keppninni bæði í ár og í fyrra.

„Ég geri bara betur í næsta móti“

Kristinn segir frá því að í byrjun keppninnar hafi hann verið fremstur með litla bróður sinn Davíð fyrir aftan sig, sem tók seinna fram úr honum. Með litla bróður sinn fyrir framan sig og nífaldan Íslandsmeistara á hælum sér var Kristinn á góðum stað í keppninni þar til hann datt í snöggri beygju og segist hafa misst hausinn aðeins. Eftir það hjólaði hann ekkert sérstaklega hratt sem leiddi til þess að Ingvar tók fram úr honum.

„Ég var bara einhvernvegin ekki með þetta og hugsaði bara: „svona fór þessi keppni og vonandi vinnur bróðir minn og ég geri bara betur í næsta móti“,“ segir Kristinn.

Þegar Kristinn sá bróður sinn seinna úti í kanti í vandræðum með hjólið sitt ákvað hann að gera eitthvað í sínum málum. Seinna kallaði pabbi hans, sem var á meðal áhorfenda, til hans að hann væri við það að jafna bilið á milli hans og Ingvars, sem var þá í fyrsta sæti. Kristinn kveðst hafa ákveðið þá að gefa í sem gerði það að verkum að hann náði að lokum að taka fram úr Ingvari og vinna keppnina. Ingvar lenti þá í öðru sæti og Davíð í þriðja.

Kom heim viku fyrir keppnina

„Það var bara sjúklega gott að koma í mark fyrstur eftir að ná að vinna þetta upp aftur,“ segir Kristinn.

Aðspurður segist Kristinn ekki hafa verið sigurviss fyrir keppnina þar sem hann hafi ekki æft brautina jafn vel og fyrir ári. Ingvar hafi verið að æfa brautina síðan í maí, en hann sjálfur hafi í rauninni ekki komið heim til Íslands fyrr en viku fyrir keppnina.

Kristinn hefur verið að keppa í götuhjólreiðum úti í Danmörku og Svíþjóð sem hann segir vera allt öðruvísi en að keppa heima á Íslandi.

„Ekki búinn að gera annað en að hjóla“

Spurður út í framtíð sína í hjólreiðum segist Kristinn hafa undanfarið verið að beina allri athygli sinni á íþróttina. „Ég er ekki búinn að gera annað en að hjóla, bæði í fyrra og núna.“

„Ég vil náttúrulega sjá hvað ég kemst langt í þessu,“ segir hann og bætir við að hann stefni mögulega á að fara í lið úti í Danmörku.

Spurður hvernig ástandið hafi verið á honum eftir erfiða keppni segist hann hafa verið búinn á því samdægurs en farið beint aftur út að hjóla næsta dag í roki og rigningu. „Þegar maður er búinn að æfa svona mikið þá nær maður sirka að ná alveg ágætri endurheimt, bara yfir eina nótt, því maður er búinn að æfa það, eins og að fara í keppnir dag eftir dag úti.“

Mikil drulla á mótinu

Kristinn Jónsson og Kristín Edda Sveinsdóttir urðu Íslandsmeistarar í ólympískum fjallahjólreiðum á laugardaginn en bæði eru þau í Hjólreiðafélagi Reykjavíkur.

Á mótinu þurftu keppendur að hjóla fimm 4,7 kílómetra langa hringi í mikilli drullu í Öskjuhlíðinni en mótið var haldið af Hjólreiðafélagi Reykjavíkur í samstarfi við Örninn Trek.

Kristinn Jónsson og Kristín Edda Sveinsdóttir.
Kristinn Jónsson og Kristín Edda Sveinsdóttir. Ljósmynd/Sveinn Ottó Sigurðsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert