Ingvi Björn Birgisson og Adam Máni Valdimarsson á Subaru Impreza sigruðu í Rally Reykjavík, lengstu rallkeppni ársins hérlendis, sem lauk í gær á Uxahryggjum.
Þegar upp var staðið höfðu þeir Ingvi og Adam 3:47 mín forskot á mæðginin Gunnar Karl Jóhannesson og Lindu Karlsdóttur á Ford Fiesta R5. Ingvi og Adam óku af miklu öryggi alla keppnina og náðu besta tímanum á átta af tólf sérleiðum rallsins. Á níundu sérleið, norður Kaldadal, óku þeir á 14:31 mín sem er besti tími sem náðst hefur á þessum tæplega 30 km langa höfuðfjallvegi frá Reyðarvatni norður í Hálsasveit.
Annað sætið dugði þeim Gunnari Karli og Lindu til þess að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn þetta árið en þetta er fimmta árið í röð sem Gunnar verður Íslandsmeistari ökumanna í rallakstri. Þau voru í brasi alla keppnina þar sem framdrifið í bílnum bilaði í gær og það munar um það á krókóttum og erfiðum malarvegum.
Bræðurnir Halldór og Sigurgeir Guðbrandssynir á Subaru Impreza sigruðu nokkuð örugglega í AB-varahlutaflokknum og eina kvenáhöfn keppninnar, Karítas Birgisdóttir og Helena Ósk Elvarsdóttir á Peugeot 108 sigruðu í E-1000 flokknum og tryggðu sér um leið Íslandsmeistaratitilinn í flokknum.
Alls voru eknir tæplega 280 kílómetrar á sérleiðum í þessu ralli og voru afföllin nokkur en af þeim átján bílum sem hófu keppni skiluðu ellefu sér í endamark.