Tvö Íslandsmet slegin á HM

Máni Freyr Helgason.
Máni Freyr Helgason. Ljósmynd/Kraftlyftingasamband Íslands

Heimsmeistaramót unglinga í klassískum kraftlyftingum og kraftlyftingum með búnaði fór fram dagana 28. ágúst – 8. september en mótið var haldið á Möltu. Fyrir hönd Íslands kepptu tveir karlar og ein kona, öll í klassískum kraftlyftingum, og féllu tvö Íslandsmet.

Máni Freyr Helgason sem keppti í -83 kg flokki (junior) opnaði á 217.5 kg í hnébeygju og lyfti svo 232.5 kg í annarri tilraun. Hann reyndi svo við í Íslandsmet unglinga í þriðju tilraun og náði að lyfta 242.5 kg en lyftan var dæmd ógild vegna dýptar.

Í bekkpressu bætti Máni sinn besta árangur um 2.5 kg. þegar hann lyfti 167.5 kg og í réttstöðulyftu fór hann upp með 280 kg og var mjög nærri því að klára 292.5 kg. í síðustu lyftunni sem hefði verið Íslandsmet unglinga. Samanlagt lyfti hann 680 kg sem skilaði honum 21. sæti í fjölmennum þyngdarflokki.

Bætti Íslandsmetið um 2,5 kg

Alvar Logi Helgason sem keppir í -105 kg flokki bætti árangur sinn í öllum greinum, ásamt því að setja Íslandsmet. Alvar fékk allar lyftur í hnébeygjunni gildar og lyfti þar mest 255 kg sem er persónuleg bæting hjá honum um 5 kg.

Í bekkpressu gerði hann sér lítið fyrir og bætti Íslandsmet unglinga um 2.5 kg þegar hann lyfti 170 kg. Í réttstöðulyftu fór hann svo upp með 280 kg sem er 10 kg bæting hjá honum í greininni. Samanlagt lyfti hann 705 kg og hafnaði í 24. sæti í þyngdarflokknum.

Alvar Logi Helgason.
Alvar Logi Helgason. Ljósmynd/Kraftlyftingasamband Íslands

Kolbrún Katla með Íslandsmet

Kolbrún Katla Jónsdóttir sló lokatóninn hjá íslenska liðinu á HM unglinga með glæsilegri frammistöðu. Kolbrún sem keppti í +84 kg flokki byrjaði vel í hnébeygjunni þar sem hún lyfti seríunni 195-207.5-217.5 en síðasta lyftan hennar er nýtt Íslandsmet í opnum flokki.

Í bekkpressu lyfti hún 85-90-92.5 og bætti þar sinn persónulega árangur um 2.5 kg. Réttstaðan gekk líka vel þar sem hún hún opnaði á 180 kg og tók svo 190 kg í annarri lyftu. Hún reyndi svo við 197.5 kg í síðustu tilraun og var hársbreidd frá því að klára lyftuna. Samanlagt lyfti Kolbrún 500 kg og endaði í 6. sæti í flokknum.

Kolbrún Katla Jónsdóttir.
Kolbrún Katla Jónsdóttir. Ljósmynd/Kraftlyftingasamband Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert