„Þegar að þú lifir mestmegnis á styrkjum þá fylgir það því líka ákveðin óvissa,“ sagði kúluvarparinn og Ólympíufarinn Erna Sóley Gunnarsdóttir í Dagmálum.
Erna Sóley, sem er 24 ára gömul, fór á sínu fyrstu Ólympíuleika á dögunum í París í Frakklandi en hún er margfaldur Íslandsmeistari og Íslandsmethafi í kúluvarpi.
Erna Sóley þarf að huga vel að mataræðinu en hún hefur meðal annars tekið að sér hlutastarf á pítsustað til þess að eiga fyrir keppnisferðum og öðru tengdu íþróttinni.
„Ég þarf að borða mikið, prótein og annað,“ sagði Erna Sóley.
„Verandi kúluvarpari þá get ég alveg leyft mér eina til tvær pítsur, þó það sé kannski ekki beint hollt fyrir mig.
Ég reyni fyrst og fremst að borða góðan og hollan mat, þó það sé auðvitað mjög dýrt á Íslandi,“ sagði Erna Sóley meðal annars.