Ólympíumeistari segir frá hræðilegri barnæsku

Ludmila Engquist hefur gengið í gegnum ýmislegt.
Ludmila Engquist hefur gengið í gegnum ýmislegt. Ljósmynd/Ólmypíuleikarnir

Ludmila Engquist, sem varð ólympíumeistari í 100 metra grindahlaupi á Ólympíuleikunum í Atlanta árið 1996, segir m.a. frá hræðilegri barnæsku í ævisögu sinni sem hún gaf út í síðustu viku.

Engquist, sem var á sínum tíma ein vinsælasta íþróttakona Svíþjóðar, er fædd og uppalin í Cherepovets, norður af Moskvu, á tímum Sovétríkjanna.

Í bókinni skrifar hún um ofbeldi sem hún mátti þola frá fimm ára aldri, en fjölskylda hennar deildi húsnæði með tveimur öðrum fjölskyldum. Eldri strákur úr einni fjölskyldunni beitti hana ofbeldi árum saman. 

„Ég var fimm ára og hann 14 ára þegar það byrjaði. Ég vann hann í borðspili og hann beitti mig hörðu ofbeldi. Hann hótaði mér öllu illu ef ég segði einhverjum frá. Ég passaði mig að þurrka blóðið vel til að enginn myndi sjá hvað var í gangi,“ skrifar hún.

Eins og hann ætlaði að drepa hana

Faðir hennar drakk duglega og varð ofbeldisfullur eftir að hann neytti áfengis. „Þegar hann drakk var mamma skíthrædd. Hann lamdi hana af miklu afli, eins og hann ætlaði að drepa hana.“

Þegar Engquist var aðeins 15 ára gömul byrjaði hún með þjálfara sínum sem var tíu árum eldri.

„Hann barði mig fyrir að tala, hann barði mig fyrir að þaga, fyrir að horfa á hann, fyrir að horfa niður, fyrir að fara snemma að sofa og fyrir að fara seint að sofa,“ skrifar hún.

Féll á lyfjaprófi

Þrátt fyrir mörg áföll tókst Engquist að verða bæði heims- og ólympíumeistari í 100 metra grindahlaupi. Hún keppti fyrst um sinn fyrir Sovétríkin en fluttist til Svíþjóðar þegar hún kynntist Johan Engquist og kvæntist honum. Eftir það hóf hún að keppa fyrir Svíþjóð. 

Hún ætlaði sér að verða fyrsta konan til að vinna gull á Ólympíuleikum og Vetrarólympíuleikum og stefndi á gullið í tveggja manna sleðakeppni á Vetrarleikunum í Salt Lake City í Utah.

Hún féll hins vegar á lyfjaprófi stuttu fyrir keppni og hlaut orðspor hennar varanlegan skaða fyrir vikið.

Hún var greind með brjóstakrabbamein árið 1999 og veit ekki hve lengi hún á eftir ólifað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert