„Ef við tökum þessi milljarðafyrirtæki hér á landi sem dæmi, eru þau ekki best í heimi í sínu fagi?“ sagði Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, í Dagmálum.
Vésteinn, sem er 63 ára gamall, var ráðinn afreksstjóri ÍSÍ í janúar á síðasta ári eftir afar farsælan feril í íþróttum, fyrst sem kringlukastari og síðar sem afreksþjálfari.
Vésteinn setur spurningamerki við það af hverju margir af færustu þjálfurum Íslands séu að þjálfa á erlendri grundu.
„Mikið af þessu fólki innan fyrirtækjana er íþróttafólk sem vill sjá íþróttir halda áfram að þróast í rétta átt,“ sagði Vésteinn.
„Það er líka samfélagsleg skylda fyrirtækjanna að gefa til baka og sjá til þess að íslenskt samfélag haldi áfram að þróast. Þess vegna er það þannig, í öllum löndunum í kringum okkur, að ríkið kemur með 70% af fjármagninu inn í íþróttahreyfinguna og fyrirtækin í landinu koma með 30% af fjármagninu.
Ég sé ekki að við þurfum að finna upp hjólið í þessu og þetta virkar erlendis. Af hverju ætti þetta ekki að virka á Íslandi? Ég var að þjálfa í svona kerfi og ég vann medalíur.
Alfreð Gíslason, Þórir Hergeirsson, Dagur Sigurðsson, Elísabet Gunnarsdóttir og Heimir Hallgrímsson eru öll að þjálfa erlendis og ná í medalíur. Af hverju er þetta fólk ekki að þjálfa á Íslandi. Eigum við ekki bara að gera þetta hérna heima og ná í medalíur hér?“ sagði Vésteinn meðal annars.
Viðtalið við Véstein í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.