„Ég sagði upp öllum styrktarsamningunum mínum því ég sá ekki fram á að geta sinnt þessu og mig langaði ekki að sinna þessu,“ sagði crossfitkonan Sólveig Sigurðardóttir í Dagmálum.
Sólveig, sem er 29 ára gömul, tilkynnti á síðasta ári að hún væri hætt að keppa í crossfit og kom sú ákvörðun mörgum á óvart enda var hún efsti Íslendingurinn á heimslistanum í crossfit á þeim tíma.
Sólveig fann ekki lengur fyrir ánægjunni sem fylgdi því að keppa í crossfit en hún er með rúmlega 160.000 fylgjendur á samfélagsmiðlinum Instagram í dag, sem voru þá talsvert fleiri á meðan hún var að keppa í crossfit.
„Þú verður mjög þreyttur á því að vinna á samfélagsmiðlum,“ sagði Sólveig.
„Það er alveg gaman að vera með marga fylgjendur þarna en það getur líka verið lýjandi. Það er samt yfirborðskennt að segja það en mér fannst erfitt að sjá fólk hætta að fylgja mér, eftir að ég hætti að keppa. Það tók aðeins á sálartetrið og ég vissi ekki alveg í hvaða átt ég átti að taka Instagrammið mitt.
Í stóra samheninginu þá skiptir þetta auðvitað engu máli og í dag er ég eiginlega alveg hætt að pæla í þessum samfélagsmiðlum,“ sagði Sólveig meðal annars.
Viðtalið við Sólveigu í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.