Vill setja kvóta á fjölda erlendra leikmanna

„Það liggur í augum uppi, í svona litlu landi, að við verðum að reyna að búa til íþróttafólk og þá frekar selja það úr landi,“ sagði Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, í Dagmálum.

Vésteinn, sem er 63 ára gamall, var ráðinn afreksstjóri ÍSÍ í janúar á síðasta ári eftir afar farsælan feril í íþróttum, fyrst sem kringlukastari og síðar sem afreksþjálfari.

Virðast eyða um efni fram

Mörg íslensk félagslið leggja mikið kapp á það að fá til sín sterka erlenda leikmenn í stað þess að treysta á efniviðinn innan félagsins.

„Flestir klúbbar hér á landi virðast eyða um efni fram í stað þess að sníða stakk eftir vexti,“ sagði Vésteinn.

„Innkoman er lítil og við erum allt of fá. Mér finnst að það eigi að vera kvóti á því hversu margir erlendir leikmenn mega spila í deildunum hérna heima en sum sérsambönd þurfa auðvitað að fylgja alþjóðareglum líka í einhverjum tilfellum.

Ég hef aldrei skilið þá ákvörðun að kaupa eldri leikmenn og setja unga leikmenn á bekkinn í staðinn. Af hverju ekki að nýta sér efniviðinn í félaginu og búa til góðan leikmann úr ungu stráknum í staðinn fyrir að eyða pening í einhvern sem hefur enga tengingu við félagið,“ sagði Vésteinn meðal annars.

Viðtalið við Véstein í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Vésteinn Hafsteinsson.
Vésteinn Hafsteinsson. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka